Gekk upp og niður Esjuna í sólarhring

Svanberg fagnar því að vera búinn að ganga átta ferðir …
Svanberg fagnar því að vera búinn að ganga átta ferðir upp Esjuna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ligg bara og tek því mjög rólega. Ég stend eiginlega ekki í lappirnar ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir Svanberg Halldórsson viðskiptafræðingur í samtali við mbl.is. Svanberg náði því ótrúlega afreki að ganga upp og niður Esjuna tólf sinnum í einum rykk og er því líklega íslandsmethafi í Esjugöngu.

Svanberg lauk sinni tólftu ferð rétt fyrir klukkan fimm í morgun og hafði þá gengið í 23 klukkustundir og 29 mínútur, samtals 83,2 kílómetra. Tilgangurinn var að safna áheitum til styrktar Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Fyrir 10 árum gekk Svanberg maraþon upp Esjuna en ákvað að ganga næstum tvöfalt lengra í þetta skiptið. Hann viðurkennir fúslega að gangan hafi verið erfiðari en hann gerði ráð fyrir í upphafi.

„Það er þessi samblanda af andlega og líkamlega þættinum og sveiflurnar þar á milli. Á tímabili er maður búinn á því líkamlega og á tímabili er hausinn farinn. Hausinn var sterkur framan af og það var ekki fyrr en í áttundu ferð sem hann fór alveg en kom svo aftur,“ segir Svanberg sem var kominn upp í sófa að hvíla sig þegar mbl.is náði tali af honum. Hann reiknar með því að vera meira og minna í sófanum í dag og á morgun en vonast til að komast niður í bæ á 17. júní.

Söfnunin hefur gengið vel og nú þegar hafa safnast um 300.000 krónur frá einstaklingum. Söfnunin verður opin út þriðjudag og því nægur tími fyrir fólk til að láta gott af sér leiða.

Svanberg er þó ótrúlegt en satt ekki kominn með nóg af Esjunni í bili. „Nei mér þykir vænt um Esjuna. Ég geri þetta ekki aftur en ég fer aftur á Esjuna," segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert