Fljúga 100 km á svifvængjum á einum degi

Hans Kristján Guðmundsson, t.v., og Thomas Juel Christensen hafa flogið …
Hans Kristján Guðmundsson, t.v., og Thomas Juel Christensen hafa flogið saman frá aldamótum og eru þaulreyndir svifflugsmenn. Nú taka þeir þátt í einni hörðustu keppni heims í þessari íþrótt. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ævintýri alla leið. Þetta er ein magnaðasta keppni í heiminum,“ segir Hans Kristján Guðmundsson, sem er staddur í tjaldi í Sviss einmitt núna. 

Hann á langa leið fram undan: rúmlega 1.100 kílómetra ferðalag um Alpana á 12 dögum. Það fer hann hvorki á bíl né í flugvél, heldur á svifvængjum. Og þess á milli á hlaupum.

Hans Kristján á góðum degi í háloftunum.
Hans Kristján á góðum degi í háloftunum. Ljósmynd/Aðsend

Svifvængjakeppnin X-Alps, sem er kapphlaup frá Salzburg til Mónakó, er talin einhver erfiðasta ævintýrakeppni í heiminum. Hans Kristján er ekki eiginlegur keppandi heldur aðstoðar hann Thomas Juel Christensen, danskan félaga sinn. Hans fer allt sem Thomas fer.

Thomas Juel með sterka sjálfsmynd í háloftunum.
Thomas Juel með sterka sjálfsmynd í háloftunum. Ljósmynd/Aðsend

Í dag var fyrsti dagurinn og lagt var af stað frá Salzburg. Þegar mbl.is náði tali af Hansi höfðu hann og hans menn slegið upp búðum í sveitinni í grennd við svissneska þorpið Wagrain og höfðu flogið lítið, þar sem rignt hafði. Þó flugu þeir um 30 km.

Thomas eftir lendingu:

Á morgun er markið sett hærra. Þá er stefnt á að fljúga um 100 kílómetra áfram vestur. Þeir þurfa að leggja af stað snemma í fyrramálið og í keppninni eru 13 viðkomustaðir þar sem þeir þurfa að merkja við sig til þess að skrásetja og staðfesta leið sína um keppnisbrautina. Þeir hafa þegar merkt við sig á tveimur.

Leiðin um Alpana kynnt fyrir keppendum í síðustu viku. Alparnir …
Leiðin um Alpana kynnt fyrir keppendum í síðustu viku. Alparnir eru þveraðir í keppninni, samtals farnir um 1.100 kílómetrar. Ljósmynd/Aðsend

Reiða sig á hitauppstreymi

Eins og segir þurfa Hans og Thomas að ferðast alla leiðina fótgangandi eða fljúgandi. Hans má að vísu fara um borð í farartæki þar sem hann er ekki eiginlegur keppandi en að öðru leyti flýgur hann allt sem Thomas flýgur.

Svifvængirnir virka þannig að kapparnir taka tilhlaup og steypa sér fram af fjöllum úr mikilli hæð og ef byrinn er hagstæður nýta þeir sér hitauppstreymið til að hækka flugið. Þannig geta þeir ferðast fleiri tugi kílómetra í einni atrennu. Ef þeim fatast flugið eða veður er óhagstætt þarf Thomas að hlaupa leiðina í staðinn. Sportið gengur þannig út á að ná góðu hitauppstreymi, sem myndast í rauninni með hita frá sólinni.

Einhvern veginn svona er útsýni manna er þeir þeytast um …
Einhvern veginn svona er útsýni manna er þeir þeytast um loftin blá, en svifvængir geta fleytt mönnum áfram á 40 kílómetra hraða. Ljósmynd/Aðsend

Jaðaríþróttir hættulegar eðli máls samkvæmt

„Þetta er náttúrulega jaðaríþrótt og telst vera hættuleg en ég myndi ekki segja það, ef þú veist hvað þú ert að gera, þá er þetta bara flug eins og hvað annað,“ segir Hans, sem hefur stundað íþróttina frá aldamótum, rétt eins og félagi hans Thomas.

Það eru erfiðar aðstæður sem munu mæta félögunum á leiðinni og Hans bendir á að þessi keppni sé ein sú erfiðasta í heimi af sinni gerð. „Þetta er erfið leið. Við erum náttúrulega að þvera alpana, sem getur verið erfitt, þetta eru jöklar, það er snjór, við erum með ísaxir og gadda og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir hann.

Hópurinn lætur þar nótt sem nemur og slær upp tjaldbúðum. …
Hópurinn lætur þar nótt sem nemur og slær upp tjaldbúðum. Ekki er þó endilega að vænta svona aðstæðna alla leið, því veðráttan er harðari lengra inni í Ölpunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert