Segir húsmæðraorlof tímaskekkju

mbl.is/​Hari

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, segir að orlof húsmæðra í Árnes- og Rangárvallasýslu sé „algjör tímaskekkja“ en bærinn greiddi um þrjú hundruð þúsund kr. fyrir orlof húsmæðra í fyrra.

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir. Ljósmynd/Lýður Guðmundsson

Samkvæmt lögum um orlof húsmæðra eiga þær konur rétt á að sækja um orlof sem veita eða hafa veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf. Í lögunum segir að til þess að standa straum af kostnaði við orlof húsmæðra skuli sveitarsjóður leggja árlega fram ákveðna fjárhæð.

„Það er óeðlilegt að það skuli vera nefskattur á alla íbúa þessa lands svo ákveðinn íbúahópur komist í sumarfrí og það eru engin spurningarmerki sett við hvort viðkomandi hafi efni á sumarfríi eða ekki,“ segir Aldís. „Þetta eru bara lög frá Alþingi og við höfum á hverju einasta ári gert athugasemdir við þetta hér í Hveragerði. Það er ekki það að viljum ekki að þessar konur fari í sumarfrí og ég skil alveg að fyrir tugum ára hafi verið þörf fyrir orlof húsmæðra þegar konur unnu ólaunaða erfiðisvinnu í sveitum landsins og komust aldrei í frí. Nú er árið 2019 og það eru allt aðrar aðstæður uppi,“ segir Aldís sem telur það tímaskekkju að vera með niðurgreitt ferðalag fyrir ákveðinn hóp án tillits til efnahags viðkomandi og þess hvort viðkomandi getur borgað sín frí sjálfur. Slíkar greiðslur séu yfirleitt tekjutengdar. „Ég myndi mögulega skilja þetta ef þetta væri sumarfrí fyrir tekjulægstu íbúa þessa lands en ekki bara sumarfrí fyrir alla sem hafa forstöðu fyrir heimili sem eru velflestir fullorðnir Íslendingar í dag.“ Aldís bætir við að hún efast ekki um að þetta séu góðar ferðir, þær séu vel skipulagðar og skemmtilegar.

Haustferð á Hótel Borgarnes

Í fyrra fóru 66 konur í orlofsferð, 45 konur úr Árnessýslu og 21 úr Rangárvallasýslu. Gist var á Hótel Borgarnesi dagana 7. til 12. október 2018. Orlofsnefndum er skylt að senda árlega skýrslu um starfsemi sína ásamt reikningum. Samkvæmt skýrslu orlofsnefndar húsmæðra í Árnes- og Rangársvallarsýslu kemur fram að fengin var spákona/miðill eitt kvöldið, farið var í dagsferð til Hvanneyrar á landbúnaðarsafnið á sýninguna „Konur í landbúnaði í 100 ár.“ Drukkið var miðdegiskaffi í Húsafelli og síðan var hátíðarkvöldverður með skemmtiatriði þar sem fenginn var ungur tenórsöngvari ásamt undirleikara áður en trúbador hélt uppi stemmingu fram eftir kvöldi.

„Það er í raun fullkomin linkind af Alþingi að hafa ekki viðurkennt það fyrir lifandi löngu að þetta fyrirkomulag er bara ekki við hæfi árið 2019. Ef við erum að borga um 296 þúsund þá er þetta 113 kr. á íbúa. Þá er landið í heild að borga um 40 til 50 milljónir,“ segir Aldís að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu sem kom út 13. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert