Skákmót og hátíðarhöld á vegum Hróksins og Kalak

Setið að tafli í Tasillaq.
Setið að tafli í Tasillaq. mbl.is/Ómar Óskarsson

Efnt hefur verið til fagnaðarfundar í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn klukkan 14 í dag. Skákfélagið Hrókurinn og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, standa að baki hátíðinni.

Meðal þess sem boðið verður upp á er myndasýning frá Grænlandi, tónlistaratriði og ýmiskonar veitingar.

Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, segir að skemmtunin sé opin öllum og hann vonist til að sjá sem flesta. „Við ætlum að reyna að vera með sem mest skemmtilegheit á boðstólum. Þetta verður sannkallaður fagnaðarfundur þar sem allir eru velkomnir,“ segir Hrafn og bætir við að fyrir áhugasama standi til boða að taka þátt í skákmóti sem fram fer á svæðinu. „Efnt verður til Air Iceland Connect-skákmóts í tilefni af því samnefndri hátíð í Nuuk var einmitt að ljúka núna nýverið. Sú hátíð heppnaðist með miklum ágætum,“ segir Hrafn sem kveðst vongóður um góða þátttöku í mótinu.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Hróknum verður Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra heiðursgestur á hátíðinni.

Skákmeistarar boða komu sína

Að sögn Hrafns er Guðlaugur Þór harðsnúinn skákmaður og mikill Grænlandsvinur. Auk hans verður fjöldi stórmeistara í skák á svæðinu, en nú þegar hefur Hannes Hlífar Stefánsson auk Björns og Braga Þorfinnssona boðað komu sína.

„Þessi fagnaðarfundur er til þess að safna saman gömlum og nýjum Hróks- og Grænlandsvinum á eina hátíð. Það er engin skylda að kunna mannganginn eða annað sem viðkemur skák heldur eru allir velkomnir. Það má segja að það endurspeglist einna helst í kjörorðum skákhreyfingarinnar, við erum ein fjölskylda. Við vonum því að sem flestir láti sjá sig,“ segir Hrafn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert