„Þetta er búið að vera alveg brjálað“

Liv Bach Bjarklind er hálfdönsk og hálfíslensk. Hún útskrifaðist með …
Liv Bach Bjarklind er hálfdönsk og hálfíslensk. Hún útskrifaðist með sérstöku láði úr Pace-háskólanum í New York á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Liv Bach Bjarklind er íslensk leikkona sem útskrifaðist á dögunum úr Pace University í New York í Bandaríkjunum. Hún gerði sér lítið fyrir og var í tvöföldu námi í vetur og kláraði þannig nám sem á að taka fjögur ár á þremur árum. Og það með 3,94 af 4 í einkunn.

Liv er að vonum stolt af árangrinum. Hún var meðal efstu nemenda og útskrifaðist með sérstöku láði (l. magna cum laude). Hún segir í samtali við mbl.is langt og strangt ferli að baki.

„Venjulega er námið fjögur ár en ég fékk sérstakt leyfi til að taka það á þremur árum,“ segir Liv. Þess vegna var hún í raun að taka tvær annir á einni önn núna í vetur. „Þetta er búið að vera alveg brjálað,“ segir hún hreinskilnislega.

View this post on Instagram

Undergrad done. BFA in Acting Achieved. Next Step: World Domination🦄

A post shared by Liv Bach Bjarklind (@livbachbjarklind) on May 19, 2019 at 8:56am PDT

Námið við Pace University er að því leyti óhefðbundið leikaranám að þar er ekki aðeins kennd færni í eiginlegri leiklist heldur er einnig lögð áhersla á það hvernig það „að vinna sem leikari í raun og veru,“ segir Liv.

Lék Samuel Jackson í Pulp Fiction

Gráðan hennar, BA-gráða í leiklist, er kölluð leikaragráða fyrir bíómyndir, sjónvarp, talsetningu og auglýsingar (e. acting for film, television, voice-overs and commercials). „Prógrammið er 7-8 ára gamalt og er tilraun til þess að bjóða upp á nám sem kennir okkur ekki bara hefðbundna leiklist heldur er reynt að undirbúa okkur til dæmis sérstaklega fyrir það hvernig það er að vera á vinnumarkaðnum,“ segir Liv.

„Þetta er mest miðað við leiklist fyrir sjónvarp en auðvitað er mikið af hefðbundnum leiklistartímum líka. Það var sérstaklega nú á seinustu önninni sem við fórum að taka inn alls konar æfingar sem maður myndi ekki kynnast annars staðar,“ segir hún.

Þannig hafi nemarnir verið hvattir til að teygja sig sem leikarar, þenja mörk hins mögulega. „Ég lék til dæmis karakterinn hans Samuel Jackson í Pulp Fiction, sem ég held að ég muni nú ekki gera annars staðar,“ segir hún og hlær.

Bæði dönsk og íslensk

Liv er hálfdönsk, faðir hennar er danskur og móðir hennar íslensk. Sem barn bjó hún nokkuð á Íslandi en unglingsárin í Danmörku og hefur ríkisborgararétt þar sem og á Íslandi. Danska ríkið hefur stutt hana fjárhagslega í náminu, sem er á Manhattan í New York. Fjárhagslega getur vitaskuld reynst flókið að búa í miðri New York, svo flókið raunar, að þegar Liv komst fyrst inn í námið á sínum tíma fyrir fjórum árum þurfti hún að bíða með að hefja nám í eitt ár af því að hún þurfti að safna sér pening.

Eftir ár af vinnu í Danmörku, þar sem Liv var einnig í fjarnámi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, fór hún aftur í inntökuprófin og komst aftur inn. Hún kláraði eina önn í kvikmyndafræði. Svo hóf hún nám við Pace, eftir að hafa komist inn í annað sinn. Og það er meira en að segja það að komast tvisvar þarna inn, inntökuhlutfallið er 7%, bara eins og í Julliard-skólanum fræga.

Fram undan er að finna sér vinnu. Liv segir vel hugsanlegt að hún reyni fyrir sér í leiklist á Íslandi en nú sé hún að svipast um eftir umboðsmönnum í Danmörku. „Svo er ég sjálf að skrifa mína eigin bíómynd, sem ég á enn eftir að ákveða hvar á að gerast,“ segir Liv, sem virðist vera með nokkur járn í eldinum. Hún bendir á að til mikillar lukku framleiddu nemendur svo mikið af efni í skólanum að það dugir í kynningarmyndband um Liv sem leikara (e. showreel). Einnig býr hún að reynslu úr LAMDA, þar sem hún tók eina „Shakespearean“-önn á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert