Pawel forseti út kjörtímabilið

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, tekur við sem forseti borgarstjórnar.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, tekur við sem forseti borgarstjórnar. mbl.is/Eggert

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, tekur við af Dóru Björt Guðjónsdóttur Pírata þegar hann verður að líkindum kjörinn forseti borgarstjórnar á síðasta borgarstjórnarfundi fyrir sumarfrí, sem stendur yfir núna.

„Ég er bara nokkuð spenntur fyrir þessu,“ segir Pawel í samtali við mbl.is. „Ég ætla að halda áfram að reyna að búa til andrúmsloft málefna og sátta,“ segir hann.

Kjörorð Pawels sem forseta borgarstjórnar verða þrjú: „Fyrirsjáanlegur, formfastur og sanngjarn.“

Kosningin er til eins árs en Pawel gerir ráð fyrir að vera forseti borgarstjórnar út kjörtímabil. Um það virðist hafa verið samið. „Kosningin er til eins árs en ég geri ráð fyrir að þetta vari út kjörtímabilið,“ segir Pawel.

Pawel segir að um þetta hafi verið samið þegar borgarstjórnin var mynduð. Hann yrði fyrst aðalmaður í menningar-, íþrótta og tómstundaráði en tæki svo við sem forseti borgarstjórnar að ári liðnu.

Pawel telur að þetta muni ekki skipta sköpum um hans daglegu störf en er spenntur fyrir verkefninu. „Ég hef notið mín vel í starfinu í menningunni og íþróttunum og hef verið að mæta á alls kyns viðburði í starfi mínu þar. Forsetaembættið er svipað í þeim skilningi og ég held að þetta muni því ekki hafa stjarnfræðileg áhrif á vinnuframlagið sjálft,“ segir hann.

Á eftir verður kosið um málið og Pawel gerir ekki ráð fyrir öðru en að njóta trausts borgarstjórnarinnar til að gegna þessu embætti. Þetta liggur sem sé að mestu fyrir. Á sama hátt og Dóra Björt var yngsti forseti borgarstjórnar sögunnar þegar hún kom til sögunnar, verður Pawel fyrsti forseti borgarstjórnar Reykjavíkur af erlendu bergi brotinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert