Dagurinn mikilvægur fyrir lýðræðið

Forseti borgarstjórnar, Pawel Bartoszek, hélt stutta tölu og lagði blómsveig …
Forseti borgarstjórnar, Pawel Bartoszek, hélt stutta tölu og lagði blómsveig á leiði Bríetar í minningu hennar og réttindabaráttu kvenna. mbl.is/​Hari

104 ár eru í dag liðin frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólitískrar þátttöku. Er víða haldið upp á réttindabaráttu kvenna í dag og þeim árangri sem náðst hefur fagnað.

Í tilefni dagsins var Bríetar Bjarnhéðinsdóttur minnst í Hólavallakirkjugarði klukkan 11. þegar blómsveigur var lagður að leiði hennar, en Bríet átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og stofnaði hún meðal annars Kvenréttindafélag Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun til ársins 1928.

Salóme Katrín Magnúsdóttir flutti tvö lög við athöfnina.
Salóme Katrín Magnúsdóttir flutti tvö lög við athöfnina. mbl.is/​Hari

Klukkan 11:30 fór síðan fram úthlutun úr Jafnréttissjóði Íslands fyrir árið 2019 í Björtuloftum í Hörpu og ávarpaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars fundinn.

Klukkan 17. síðdegis í dag býður Kvenréttindafélag Íslands til hátíðarfundar á Hallveigarstöðum í tilefni dagsins og femíníska gleðistund í kjölfarið á Skúla Craft Bar.

„Við höfum núna í áratugi verið á Hallveigarstöðum og þar verður haldin hátíðarstund klukkan 17. Gestur fundarins í ár er Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem er nýskipaður skrifstofustjóri jafnréttismála hjá forsætisráðuneytinu og fyrrverandi borgarstjóri og Alþingiskona.“

Margt var um manninn þegar Reykjavíkurborg lagði blómsveiginn að leiði …
Margt var um manninn þegar Reykjavíkurborg lagði blómsveiginn að leiði Bríetar við hátíðlega athöfn. mbl.is/​Hari

„Síðan klukkan sex er Kvenréttindafélagið ásamt Ladybrewery, sem er eina íslenska bruggfyrirtækið í eigu kvenna og stofnað af konum, saman með happy hour á Skúlabar frá klukkan 18. og fram eftir kvöldi,“ segir Brynhildur Heiðardóttir Ómarsdóttir, framkvæmdarstýra Kvenréttindafélagsins og bætir við að skálað verði fyrir áföngum fortíðarinnar og sigrar framtíðarinnar skipulagðir.

„Við minnumst 19. júní á hverju ári því að þetta er mjög mikilvægur dagur í sögu íslensks lýðræðis og íslenskra kvenna. Þetta er dagurinn sem konur urðu í raun þátttakendur í íslensku samfélagi og urðu fullgildir borgarar.

Pawel Bartoszek, nýr forseti borgarstjórnar, flutti stutt ávarp áður en …
Pawel Bartoszek, nýr forseti borgarstjórnar, flutti stutt ávarp áður en hann lagði sveiginn að leiði Bríetar. mbl.is/​Hari

„Við viljum alltaf nýta tækifærið og minnast þeirra baráttukvenna sem hafa barist fyrir þeim áföngum sem hafa náðst. Við værum ekki komin á þann stað sem við erum á í dag ef það hefði ekki verið fyrir þessar konur sem hafa nú í rúmlega hundrað ár barist fyrir kvenréttindum,“ segir Brynhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert