Endurskoða löggjöf um réttarstöðu brotaþola

Réttarstaða brotaþola kynferðisofbeldis var til umfjöllunar á ráðherranefndarfundi um jafnréttismál …
Réttarstaða brotaþola kynferðisofbeldis var til umfjöllunar á ráðherranefndarfundi um jafnréttismál í dag Ljósmynd/Stjórnarráðið

Tillögur um bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis voru til umfjöllunar á ráðherranefndarfundi um jafnréttismál í dag, á kvenréttindadeginum. Dómsmálaráðherra mun hefja endurskoðun á löggjöf og lagaframkvæmd þegar í stað, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.  

Stýrihópi um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi var falið að gera tillögur um lagabreytingar með það að markmiði að styrkja stöðu brotaþola sem er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hópurinn fól Hildi Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðingi, að vinna skýrslu um stöðu brotaþola á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd og gera tillögur um úrbætur.

Ísland eftirbátur annarra Norðurlanda

Skýrslan leiðir í ljós að Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda að því er varðar réttarstöðu brotaþola, að Danmörku undanskilinni. Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er réttur brotaþola til upplýsinga, aðgangs að gögnum og þátttöku í meðferð máls fyrir dómi mun ríkari. Í skýrslunni eru settar fram tillögur um endurskoðun á löggjöf og lagaframkvæmd í fimmtán liðum, sem lúta að auknum rétti til upplýsinga og þátttöku á rannsóknar-, ákæruvalds- og dómstigi, auknum rétti til upplýsinga að dómi uppkveðnum og auknu aðgengi að skaðabótum. Lagt er til að brotaþolar fái aðild að sakamálinu eða, til vara, hljóti flest þau réttindi sem aðilar máls hafa eins og tíðkast á flestum Norðurlöndunum.

„Rétt er að taka fram að í samræmi við umboð stýrihópsins er hér eingöngu fjallað um réttindi brotaþola kynferðisofbeldis en lagt er til að réttindi þessi taki til allra sem eiga rétt á réttargæslumanni,“ segir í tilkynningu. 

Hér má lesa greinargerðina um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert