Greip fast um brjóst konu á dansleik

Héraðsdómur Vestfjarða.
Héraðsdómur Vestfjarða. Ljósmynd/BB

Karlmaður á sextugsaldri var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir kynferðislega áreitni. Maðurinn var auk þess dæmdur til að greiða konu sem hann áreitti 317.187 krónur í bætur.

Samkvæmt dómi eru málavextir þeir að maðurinn og konan voru stödd á dansleik í júní á síðasta ári. Tveimur dögum eftir síðar hafði konan samband við lögreglu og sagðist hafa orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu mannsins.

Sama dag leitaði konan til læknis sem greindi hana með læsta öxl og þörf fyrir sjúkraþjálfun vegna þess.

Konan lýsti atvikum þannig að hún og maður hennar hefðu staðið á dansgólfi gegnt sviði þegar skyndilega hefði verið gripið fast um bæði brjóst hennar aftan frá og viðkomandi þrýst sér upp að henni og haldið fastri. 

Við þetta brá konunni en hún sneri sér við og sá þar mann sem hún þekkti ekki. Hún hefði þá spurt manninn hvers vegna hann gerði þetta og hann svaraði því til að hún væri með svo flott brjóst. Konan bað í framhaldinu þann sem hélt dansleikinn að vísa manninum út en ekki hefði verið orðið við því. Eftir þetta hafi konan fundið fyrir stífleika í öxl og hún hefði ekki getað æft og lyft eins og áður.

Maðurinn sagðist hins vegar hafa knúsað eiginmann konunnar aftan frá og heilsað. Þá hefði konan spurt hvort hún fengi ekki líka knús og þá hefði hann tekið utan um hana með sama hætti. Tilgangurinn hefði verið að heilsa hjónunum. Konan sagði hins vegar að maðurinn hefði ekki faðmað eiginmann sinn og kannaðist ekki við að hafa beðið ókunnugan mann um knús.

Maðurinn taldi það ekki útilokað að hann hefði tekið um bæði brjóst konunnar en sagðist ekki hafa haldið henni þéttingsfast í lengri tíma. Honum hefði þótt leiðinlegt að konan varð æst og baðst afsökunar.

Sambýlismaður konunnar sagði fyrir dómi að hann hefði staðið og horft á sviðið þegar maður stóð fyrir aftan konu sína og ríghélt í hana. Konan hefði rifið sig lausa með því að rífa í fingur mannsins. Sambýlismaðurinn skammaðist í manninum í framhaldi en sagðist hafa gefist upp vegna ölvunar mannsins.

Í skýrslutöku hjá lögreglu tveimur mánuðum eftir atvikið sagði maðurinn að konan hefði tekið svo fast á fingri sér að hann væri enn bólginn. Að mati dómsins rennir það stoðum undir fullyrðingar konunnar um að hún hafi þurft að beita hörku til að losa sig og að hún hefði ekki beðið um faðmlag mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert