Mjaldrarnir nálgast Ísland

Flutningavélin sem flytur tvo mjaldra frá Kína til Íslands lendir …
Flutningavélin sem flytur tvo mjaldra frá Kína til Íslands lendir í Keflavík um 13.30 í dag.

Mjaldrarnir Litla-Hvít og Litla-Grá eru væntanlegir í Keflavík klukkan 13.30 í dag og líðan þeirra beggja er stöðug þrátt fyrir nokkurra tíma seinkun á komu þeirra í dag.

Ferðalagið er þeim strembið en aðstandendur verkefnisins eru bjartsýnir um að mjaldrarnir komist til Vestmannaeyja heilir á húfi.

„Við höfum beðið full eftirvæntingar eftir mjöldrunum svo seinkunin tekur auðvitað á taugarnar okkar, sem og mjaldranna. Þetta þýðir að þeir þurfi að vera í umhverfi sem er þeim framandi enn lengur og það er auðvitað áhyggjuefni en umönnunaraðilar í vélinni hafa sagt okkur að líðan þeirra sé góð,“ sagði Cathy Williamson frá Whale and Dolphin Conservation í samtali við mbl.is, þar sem aðstandendur verkefnisins og fjölmiðlar bíða í óðaönn eftir mjöldrunum.

Fá lögreglufylgd frá Selfossi

Ásamt mjöldrunum eru tveir þjálfarar og einn dýralæknir með í för í vöruflutningavél Cargolux sem flytur mjaldrana alla leið frá Shangæ til Keflavíkur. Áður en haldið er til Landeyjahafnar verður skipt um vatn í tönkum þeirra og þeir fluttir í sérútbúnum flutningabíl sem mun flytja þá til Landeyjahafnar.

Þegar komið er að Selfossi fær flutningabíll mjaldranna lögreglufylgd, að sögn Sigurjóns Inga Sigurðssonar, verkefnisstjóra hjá sérverkefnadeild TVG-Zimzen. Sennilegt er að mjaldrarnir fá fylgd frá Selfossi alla leið að Landeyjahöfn.

Á vef Flightradar má sjá flugleiðina og hvar mjaldrarnir eru staddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert