„Mjög villandi málflutningur“

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vísa henni algjörlega á bug,“ svarar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar mbl.is leitar viðbragða hennar við gagnrýni minnihlutans er snýr að meintum niðurskurði í fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024 til þess að mæta breyttum efnahagshorfum. Hún segir málflutning þeirra sem tala um niðurskurð villandi.

„Við erum að horfa upp á töluverðan samdrátt í okkar efnahagslífi og við honum verður að bregðast – þá er brugðist við honum með þrennum hætti. Það er gengið á afkomu ríkisins, það er horft til tekjuöflunar og síðan er dregið aðeins úr útgjaldavexti sem við höfum gert ráð fyrir,“ útskýrir forsætisráðherra.

Hægari aukning - ekki niðurskurður

„Það er reyndar mjög villandi málflutningur sem því miður hefur verið hafður uppi um að hér sé verið að skera niður í mikilvægum málaflokkum, þegar staðreyndin er sú að aukningin er hægari en gert var ráð fyrir í fyrri áætlun,“ segir Katrín.

„Þannig að ég tel að sú gagnrýni eigi hreinlega ekki rétt á sér. Hér er verið að halda áfram með þá mikilvægu uppbyggingu sem við höfum boðað. Til að mynda á sviði menntunarmála, heilbrigðismála og ýmissa annarra málaflokka.“

Hún segir ljóst að sá samdráttur sem hefur orðið á þessu ári sé töluverður. „Við honum verður að bregðast og við gerum það með mjög skynsamlegum hætti með þessari þrískiptu aðgerð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert