Þróunaraðstoð langt undir markmiði

Segja má að í breytingartillögunni, sem lögð var fram í …
Segja má að í breytingartillögunni, sem lögð var fram í dag, sé að finna glænýja fjármálaáætlun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framlög til þróunarsamvinnu verða skorin niður um 1,8 milljarða á árunum 2020-2024 miðað við fyrri tillögur fjármálaráðherra að fjármálaáætlun áranna 2020-2024. Þetta er meðal þess sem finna má í breytingartillögu meirihluta fjármálanefndar að fjármálaáætlun, sem upphaflega var lögð fram í mars, fimm dögum fyrir fall Wow Air.

Segja má að í breytingartillögunni, sem lögð var fram í dag, sé að finna glænýja fjármálaáætlun. Hverjum steini hefur verið snúið frá fyrri áætlun til að mæta verri stöðu þjóðarbúsins. Ný þjóðhagsspá Hagstofu gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti á landsframleiðslu í ár, en lagt var upp með 2,5% hagvexti, aukningu á landsframleiðslu, þegar fjármálaáætlun var fyrst lögð fram í mars.

Til að mæta tekjutapi er skorið niður á ýmsum sviðum, miðað við fyrri fjármálaáætlun. 1,4 milljarði minna verður veitt til umhverfismála á fimm ára tímabilinu og framlög til nýsköpunar og rannsókna verða skorin niður um 2,9 milljarða á sama tímabili.

Hverjum steini er snúið frá upphaflegum tillögum að fjármálaáætlun, til …
Hverjum steini er snúið frá upphaflegum tillögum að fjármálaáætlun, til að láta enda ná saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá fá framhaldsskólar 1,8 milljarði minna í sinn hlut en áður var ráðgert. Hlutur háskóla verður þó aukinn um 840 milljónir. 

Ekki staðið við stefnuyfirlýsingu

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að fjárframlög til þróunarmála skuli nema 0,35% af vergri landsframleiðslu árið 2022, fimm árum eftir að ríkisstjórnin tók til starfa. Alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands kveða á um að fylgt verði mark­miði Sam­einuðu þjóðanna um að iðnríki leggi fram 0,7%, en hlutfallið var einungis 0,25% er ríkisstjórnin tók við völdum.

Ljóst er að yfirlýstri markmið ríkisstjórnar um 0,35% af landsframleiðslu mun ekki verða uppfyllt miðað við nýja breytingartillögu, og raunar ekki eldri tillögu heldur. Árið 2022 er ráðgert að landsframleiðsla verði 3.330 milljarðar króna og nema 0,35% af þeirri fjárhæð um 11,7 milljörðum. Breytingartillaga við fjármálaáætlun gerir hins vegar ráð fyrir 7,6 milljörðum í málaflokkinn en það eru um 0,23% af VLF. Hefur hlutfallið því nær haldist óbreytt frá því ríkisstjórnin tók við í lok árs 2017. 

Upphafleg fjármálaáætlun, sem lögð var fram í mars, hefði þó heldur ekki dugað til að uppfylla markmiðið því þar var gert ráð fyrir 8,2 milljörðum eða um 2,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert