Tillaga Basalt og Eflu hlutskörpust

Vinningstillaga BASALT arkitekta og EFLU verkfræðistofu - nýtt hjúkrunarheimili á …
Vinningstillaga BASALT arkitekta og EFLU verkfræðistofu - nýtt hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði.

Basalt arkítektar ásamt verkfræðistofunni Eflu voru hlutskarpastir í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili sem byggt verður á Höfn í Hornafirði. Sautján tillögur bárust, þrjár hlutu verðlaun og tvær viðurkenningu. 

Nýja hjúkrunarheimilið mun rísa á Höfn í Hornafirði og leysa af hólmi eldra heimili sem uppfyllir ekki kröfur nútímans varðandi húsnæði og aðbúnað. Stefnt er að því að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst í byrjun árs 2020 og að heimilið verði tekið í notkun vorið 2021.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna kemur fram að tillagan uppfylli flest þeirra markmiða sem dómnefndin lagði til grundvallar. Þar segir meðal annars: „Tillagan er byggð á Eden hugmyndafræðinni með áherslu á lífsgæði og vellíðan íbúa. Byggingin lágmarkar skuggamyndun og hógværð er sýnd með tilliti til umhverfis og aðlögunar að núverandi arkitektúr.“

Í öðru sæti hönnunarkeppninnar voru Andersen & Sigurdsson arkítektar og í þriðja sæti Zeppelin arkítektar.

Heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður stóðu að hönnunarsamkeppninni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Vinnan við samkeppnina var í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Dómnefndarfulltrúar voru tilnefndir af verkkaupum og Arkitektafélagi Íslands. Formaður dómnefndarinnar var Guðlaug Einarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Öll gögn samkeppninnar og gagnaskil voru rafræn. Þetta er í fyrsta sinn sem aðilar fara þá leið og var það samkomulag þeirra að þessi keppni yrði frumraun í þeim efnum. Þessi leið þótti gefast vel og var án vandkvæða, segir á vef stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert