Ummæli forstjóra SÍ lítilsvirðandi

Heilsueflingarmiðstöðinni barst bréf frá SÍ þess efnis að samningi vegna …
Heilsueflingarmiðstöðinni barst bréf frá SÍ þess efnis að samningi vegna þjónustu miðstöðvarinnar við langveik börn yrði sagt upp frá og með 1. desember.

Sérfræðingur í barnahjúkrun segir ummæli forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þess efnis að ekki skipti máli við hverja verði samið um heimahjúkrun langveikra barna gera að engu sérþekkingu og reynslu þeirra sem henni sinna.

„Ég skil þetta þannig að hún sé að segja að það sé alveg sama hver sinni þessum börnum,“ segir Bára Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Heilsueflingarmiðstöðvarinnar, í samtali við mbl.is. 

Heilsueflingarmiðstöðinni barst bréf frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) í byrjun júní þess efnis að samningi vegna þjónustu miðstöðvarinnar við langveik börn yrði sagt upp frá og með 1. desember og í viðtali við mbl.is útilokar María Heimisdóttir, forstjóri SÍ, ekkert varðandi nýjan samning við Heilsueflingarmiðstöðina, en segir þó „ekki aðalatriðið við hvern er samið“, heldur að tryggja að ekki verði þjónusturof.

Bára Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun og forstöðumaður Heimahjúkrunarmiðstöðvarinnar.
Bára Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun og forstöðumaður Heimahjúkrunarmiðstöðvarinnar.

Bára segir ummæli forstjórans ekki samræmi við ákvæði samnings þeirra við SÍ þar sem miklar kröfur séu gerðar til þeirra sem þjónustunni sinna og í bréfi sínu til Maríu og samninganefndar SÍ, þar sem þess er krafist að umsögn forstjórans verði leiðrétt, vísar hún í þetta ákvæði samningsins:

„Verksali skal tryggja að hjúkrunarfræðingar sem inna af hendi heimahjúkrun skv. samningi þessum hafi menntun, sérþekkingu og a.m.k. 5 ára reynslu í sérhæfðri hjúkrun á sérsviði sínu. Sérhæfð hjúkrun vísar til kunnáttu hjúkrunarfræðinga sem hafa tileinkað sér þekkingu á viðkomandi sviðum, bæði í starfi og með því að sækja símenntunarnámskeið.“

Ekki síður móðgun við foreldra langveikra barna

Hjúkrunarfræðingar heimahjúkrunar barna mótmæli þessum lítilsvirðandi og móðgandi ummælum um reynslu þeirra og sérþekkingu. Þá segir Bára að það að gefa í skyn að hver sem er geti sinnt alvarlega langveikum börnum sé ekki síður móðgun við foreldra þeirra.

Bára segir ljóst að um sé að ræða pólitíska ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins sem SÍ þurfi að svara fyrir. „Það er bara verið að segja eitthvað til að svara. Þessi samningur gengur mjög vel, starfsemin er 30 ára og ekki eins og það sé ekki reynsla af þessu og aldrei borist ein einasta kvörtun. Þetta gengur vel og foreldrarnir ánægðir, en mjög áhyggjufullir og reiðir núna.“

Að sögn Báru hefur Heilsueflingarmiðstöðin ekki heyrt frá SÍ varðandi möguleika á nýjum samningi miðstöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert