Gæti þurft frekari fyrirgreiðslu ríkis

Ríkisendurskoðandi segir ekki öruggt að Íslandspóstur muni ekki þurfa á …
Ríkisendurskoðandi segir ekki öruggt að Íslandspóstur muni ekki þurfa á frekari fyrirgreiðslu ríkisins að halda á næsta ári, þrátt fyrir hækkanir á gjaldskrá. mbl.is/Eggert

Að mati ríkisendurskoðanda er ekki öruggt að Íslandspóstur muni ekki þurfa á frekari fyrirgreiðslu ríkisins að halda á næsta á ári, þrátt fyrir að hækkun burðargjalda og viðbótargjald vegna erlendra sendinga muni rétta rekstur fyrirtækisins af, um tíma hið minnsta.  

Þetta kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar um Íslandspóst, sem unnin var fyrir Alþingi og kynnt í dag. Fyrirtækið hefur átt við rekstrarvanda að stríða á síðustu árum og óskaði á liðnum vetri eftir 1,5 milljarði króna fyrirgreiðslu frá ríkinu, eiganda sínum.

Heildarfjárfestingar taldar of miklar

Ríkisendurskoðandi telur að meginskýringar á fjárhagsvanda fyrirtækisins megi rekja til þess að samdráttur sem hefur orðið undanfarin ár í bréfsendingum hafi ekki fengist að fullu bættur með hækkun á gjaldskrá, auk þess sem pakkasendingar frá útlöndum hafi reynst félaginu kostnaðarsamar. Þá hafi heildarfjárfestingar Íslandspósts verið of miklar.

„Samverkandi áhrif þessara þátta hefur leitt til skertrar greiðslugetu. Fjárhagsvandinn á árinu 2018 leiddi til þess að félagið stefndi í greiðsluvanda þegar viðskiptabanki þess lokaði fyrir frekari lánveitingar,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem leggur í skýrslunni til fjórar tillögur til úrbóta, meðal annars frekari hagræðingu í rekstri Íslandspósts.

Í skýrslunni kemur einnig fram það álit ríkisendurskoðanda að „stjórnendur Íslandspósts ohf. hafi brugðist of hægt við breytingum á markaði,“ sem stafi að hluta til af því að stjórnendur félagsins, bæði stjórn þess og yfirstjórnendur, hafi ekki fullt vald til að laga starfsemina að breyttum aðstæðum heldur þurfa að bera ákvarðanir undir ráðuneyti og eftirlitsstofnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert