Þreyttir á virðingarleysi áhrifavalda

Íslendingar eru orðnir þreyttir á virðingarleysi áhrifavalda á Instagram en yfir 10 milljónir mynda hafa birst á samfélagsmiðlinum frá Íslandi, segir í frétt BBC. Þar segir að Ísland sé vinsæll áfangastaður þeirra sem vilja ná fullkominni mynd.

Í greininni á vef BBC er meðal annars fjallað um Al­ex­and­er Tik­hom­irov, fræga rúss­neska sam­fé­lags­miðlastjörnu sem sér­hæf­ir sig í ljós­mynd­un og mynd­bands­upp­tök­um á ferðalög­um sín­um um heim­inn, en hann ók utan veg­ar skammt frá jarðböðunum við Mý­vatn og vakti sinnu­leysi hans mikla at­hygli.

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samkvæmt BBC eru vandamálin mörg sem fylgja þessum áhrifavöldum og er svo komið að á Facebook og Instagram má finna síður þar sem Íslendingar lýsa slæmri hegðun þeirra. Má þar nefna áfengisneyslu undir stýri, gönguferðir á viðkvæmum gróðri og fleira. 

Michalina Okreglicka ljósmyndari á Íslandi segir í samtali við BBC að margir þeirra áhrifavalda sem koma til Íslands hafi ekki grænan grun um hvað má og hvað ekki. Hún hafi aldrei séð jafn heimskulega hegðun neins staðar og hér á landi. Hún segist oft senda þeim ábendingar um hvað megi betur fara.

Ferðamálaráð hafi reynt að kenna ferðamönnum að sýna ábyrgð, ekki síst varðandi mosann sem er afar viðkvæmur. 

Páll Jökull Pétursson, leiðsögumaður ljósmyndara í íslenskri náttúru, telur að það séu bæði áhrifavaldar á Instagram sem hafi góð og slæm áhrif. Þeir slæmu laði að ferðamenn sem hegði sér gáleysislega á meðan aðrir reyni að fanga ólíkar leiðir til þess að njóta náttúrunnar. 

Rætt er við Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra í grein BBC en hann segir að glannaskapur einnar frægrar manneskju geti haft gífurleg áhrif á allt svæðið ef fleiri fylgja í kjölfarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert