Sprengisandsleið opnuð

Vegheflar voru sendir að sunnan og norðan inn á Sprengisand …
Vegheflar voru sendir að sunnan og norðan inn á Sprengisand og svo mættust menn á miðri leið, í orðsins fyllstu merkingu, í Nýjadalnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Fært er nú yfir Sprengisand, en það var í gær sem Vegagerðin gaf út tilkynningu þess efnis. Unnið hafði verið síðustu daga að því að gera leiðina klára, en vegheflar voru sendir út á mörkina að sunnan frá Hrauneyjum og að norðan úr Bárðardal. Menn mættust svo í Nýjadal, þar sem er skáli Ferðafélags Íslands og aðsetur landvarðar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Hvergi snjór

„Við opnum veginn núna um það bil viku fyrr en í meðalári. Á Sprengisandi er hvergi snjó að sjá og raunar hefur verið fært inn í Nýjadal að sunnan í tvær vikur. Að norðan var hins vegar fyrirstaða í nokkrum sköflum sem nú eru horfnir. Mönnum gekk vel að hefla veginn sem er rennisléttur og þægilegur yfirferðar,“ segir Ágúst Bjartmarsson, vegaverkstjóri í Vík í Mýrdal, í samtali við Morgunblaðið.

Nýidalur er því sem næst fyrir miðri Sprengisandsleið en frá Hrauneyjum að Mýri, sem er fremsti byggði bær í Bárðardal, eru 207 kílómetrar. Í ár er sú breyting frá því sem verið hefur að engar verða áætlunarferðir rútubíla yfir Sprengisand.

Gunnar Njálsson landvörður hefur verið mörg sumrin í Nýjadalnum.
Gunnar Njálsson landvörður hefur verið mörg sumrin í Nýjadalnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Jepplingar og þaðan af stærri

„Strax þegar vegurinn hefur verið opnaður er talsverð umferð, gjarnan 20 til 30 bílar á dag og yfirleitt stoppar fólk sem á leið um hér. Vegurinn er fær öllum vel búnum bílum, jepplingum og þaðan af stærri ökutækjum,“ segir Gunnar Njálsson landvörður, sem Morgunblaðið hitti í Nýjadal sl. þriðjudag. Gunnar kom á staðinn 20. júní og hefur hefur síðustu daga ásamt Ferðafélagsfólki verið að gera allt klárt fyrir sumarið. Hann hefur verið við störf í Nýjadal flest sumur frá 2004.

Flestar leiðir á hálendinu eru nú orðnar færar – eða verða á næstu dögum. Þannig vinna vegagerðarmenn nú að því að hefla Syðra-Fjall. Leggurinn frá Rangárvöllum á Emstrur hefur þegar verið opnaður, en leiðin norðan Mýrdalsjökuls verður opnuð í dag eða á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert