Fimmtíu ár eru liðin frá því framleiðsla áls hófst á Íslandi, en það var klukkan 9:42 hinn 1. júlí 1969 sem fyrsta kerið í álverinu ISAL í Straumsvík var ræst.
Frá þeim degi hefur ISAL framleitt um 6,2 milljónir tonna af áli og umbreytt endurnýjanlegri íslenskri raforku í „verðmætan málm sem á sér endalaust líf en ál er hægt að endurvinna aftur og aftur“, að því er segir í tilkynningu frá Rio Tinto á Íslandi.
„Í dag höldum við daginn hátíðlegan með starfsfólki okkar en undir lok sumars höldum við fjölskylduhátíð hér í Straumsvík þar sem gestum gefst tækifæri til að kynnast starfsemi ISAL og gleðjast með okkur,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi. Um mikilvæg tímamót sé að ræða, enda hafi ný atvinnugrein hafist með áliðnaði og rennt stoðum undir efnahag þjóðarinnar.