Gefa ekki út heilbrigðisvottorð

Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að ef fyrirtæki vilji fullvissa sig um …
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að ef fyrirtæki vilji fullvissa sig um að aðbúnaður þeirra verkamanna sem þau leigja frá starfsmannaleigum sé í lagi, þurfi þau að kynna sér hann. mbl.is/Hari

„Það er aldrei búið að gefa þessu fyrirtæki heilbrigðisvottorð,“ segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar í samtali við mbl.is um málefni starfsmannaleigunnar Menn í vinnu og matsölufyrirtækisins Eldum rétt.

Fyrirtækjunum hefur verið stefnt sameiginlega í máli fjögurra rúmenskra starfsmanna.

Kristófer Júlíus Leifsson, einn stofnenda Eldum rétt, hefur gert athugasemdir við vinnulag Vinnumálastofnunar og sagði í samtali við mbl.is í gær að starfsmannaleigan hefði sýnt fram á að hún væri búin að ganga frá samningum við Vinnumálastofnun um að allt væri „upp á tíu“ hvað starfsemina snerti, þegar að Eldum rétt ákvað að leigja starfsmennina til sín.

Það gerði fyrirtækið í janúar, að sögn Kristófers vegna mikill anna. Þá þegar hafði fréttaskýringarþátturinn Kveikur fjallað með ítarlegum hætti um misbresti í aðbúnaði og kjörum verkamanna sem starfsmannaleigan Menn í vinnu hafði á sínum snærum.

Kristófer sagði að ákvörðun Eldum rétt hafi verið „byggð á því að ef það væri rétt að menn hefðu verið í nauðung­ar­vinnu þá hefði ein­fald­lega verið búið að svipta þá starfs­leyfi“ og sagði Vinnumálastofnun hafa kastað málinu frá sér, þegar að það væri hún sem ætti að „tryggja að það sé allt í lagi.“

Ábyrgðin líka fyrirtækjanna

Unnur segir í samtali við blaðamann að eftirlit Vinnumálastofnunar með starfsmannaleigum á íslenskum vinnumarkaði sé stöðugt í gangi.

Starfsmenn komi og fari og Vinnumálastofnun óski eftir ráðningarsamningum og launaseðlum og þjónustusamningum ef það sé talin ástæða til.

„Við höfum gert athugasemdir í gegnum tíðina við fullt af gögnum sem við höfum fengið frá þessu fyrirtæki. Síðan koma gögn sem eru í lagi, en það er ekkert heilbrigðisvottorð,“ segir Unnur.

Í apríl síðastliðnum lagði Vinnumálastofnun 2,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á Menn í vinnu. Starfsmannaleigan hefur kært þá sektarákvörðun og engin niðurstaða liggur fyrir.

Hún segir að ef fyrirtæki vilji fullvissa sig um að aðbúnaður þeirra verkamanna sem þau leigja frá starfsmannaleigum sé í lagi, þurfi þau að kynna sér hann.

„Fyrirtæki geta sjálf kallað eftir launaseðlum og ættu sjálf að geta séð á reikningunum frá starfsmannaleigunni hvort að þau telji vísbendingar um að þetta séu laun sem eru í lagi. Eða þau geta spurt starfsmennina sjálfa,“ segir Unnur.

„Það eru ákveðnar skyldur á þeim líka. Heilbrigðisvottorð er ekki gefið út hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert