Óskar eftir fundi í allsherjarnefnd

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd fundi hið snarasta um málefni barna sem senda á úr landi til Grikklands og Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd komi saman á fundi hið fyrsta til að ræða málefni barna sem senda á úr landi til Grikklands og Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. 

„Af fréttaflutningi að dæma hafa hagsmunir barnanna ekki notið þess forgangs við ákvarðanatöku sem þau hafa rétt á samkvæmt lögum og barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Undirritaður er meðvitaður um að brottvísun sé yfirvofandi og því er brýn þörf á því að ráðherra málaflokksins svari fyrir aðgerðir undirstofnana sinna án tafar,“ segir Helgi í tölvupósti sem hann hefur sent nefndarmönnum. 

Vísar Helgi Hrafn þar í mál tveggja fjölskyldna frá Afganistan sem til stendur að vísa til Grikklands þar sem þær hafa fengið alþjóðlega vernd þar. 

Helgi Hrafn óskar eftir því að umboðsmaður barna verði viðstödd fundinn, en Salvör Nordal hefur sjálf óskað eftir því að ráðuneyti og Útlend­inga­stofn­un kanni hvort taka ætti til skoðunar meðferð á mál­um flótta­manna með hliðsjón af samn­ing­um Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barns­ins og öðrum alþjóðleg­um skuld­bind­ing­um.

Þá óskar Helgi Hrafn jafnframt eftir því að fulltrúar UNICEF, Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála verði viðstaddir fundinn, auk dómsmálaráðherra.

Sol­ar­is – hjálp­ar­sam­tök fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólk á Íslandi, hafa boðað til mótmæla þar sem lagst er gegn því að börn­um á flótta sé vísað af landi brott. Mót­mæl­in hefjast kl. 17 við Hall­gríms­kirkju í dag og þaðan verður gengið niður á Aust­ur­völl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert