Heilsugæslan gefur ráð gegn lúsmýi

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út ráðleggingar í baráttunni gegn …
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út ráðleggingar í baráttunni gegn lúsmýinu þetta sumarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert lát virðist vera á lúsmýinu sem herjað hefur á landann í sumar. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út ráðleggingar um hvernig skuli forðast bit og hvernig má meðhöndla bit. 

Í ráðleggingum heilsugæslunnar segir að líkt í flestum tilvikum er forvörn besta vörnin en ef fólk lendir í því að verða bitið er gott að kunna rétta meðhöndlun. Oftast eru bitin meinlaus en þau geta valdið óþægindum og kláða þar sem þau virkja ofnæmisviðbrögð líkamans. Í langflestum tilfellum getur fólk sjálft meðhöndlað einkennin og ekki þörf á að leita frekari læknisaðstoðar.

Fyrirbyggjandi ráð: 

  • Lúsmý bítur inni í húsum og á nóttunni. Það þarf því að koma í veg fyrir að það komist inn og verja sig á nóttunni:
  • Þéttriðið flugnanet í glugga getur komið í veg fyrir að lúsmýið berist inn.
  • Gott að vera í náttfötum og sokkum. Sokkarnir eru þá settir yfir buxnaskálmarnar og skyrtan ofan í buxnastrenginn. Best er ef ermarnar eru þröngar og liggja þétt að húðinni.
  • Lúsmý þolir ekki vind, því gætu viftur í svefnherbergjum hjálpað.
  • Skordýravörn sem sett er á húð og föt getur hjálpað. Vörn sem inniheldur 50% DEET (diethyltoluamide) er áhrifaríkust. Fyrir börn má skordýravörn ekki innihalda meira en 10% af DEET.

Meðhöndlun á bitum eftir lúsmý

Allskonar húsráð eru í gangi varðandi meðhöndlun á bitum. Hafa skal í huga að sum efni geta valdið enn frekari ertingu í húðinni og því ekki til bóta. Hér koma nokkur ráð sem þykja á rökum reist:

  • Kældu bólgið svæði í um 10 mínútur.
  • Verkjalyf t.d. parasetamól slær á óþægindin og óhætt að nota skv. ráðleggingum á pakka.
  • Hafðu hærra undir höndum og fótum ef bit eru þar, það getur dregið úr bólgumyndun.
  • Ekki klóra í húðina þar sem það getur aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling dregur úr kláða.
  • Ofnæmistöflur fást án lyfseðils í apótekum. Þessi lyf hindra áhrif histamíns í líkamanum og geta minnkað kláða og útbrot.
  • Sterakrem til dæmis Mildison fæst án lyfseðils í apótekum. Kremið minnkar bólgur og kláða. Sterakrem ætti ávallt að bera á í þunnu lagi og í stuttan tíma í einu. Forðast ætti að bera sterakrem í andlit eða á sár.
  • Steratöflur, eingöngu ef um svæsin útbrot er að ræða. Þá skal leita á næstu heilsugæslustöð og fá frekari ráðleggingar.

Ef útbrot eru svæsin og ná yfir stór svæði á líkamanum er mælt með því að leita til næstu heilsugæslustöðvar. Einnig ef útbrotin og bólgan vex í stað þess að dvína á nokkrum dögum. Ef um alvarlegri einkenni er að ræða svo sem öndunarfæraerfiðleika, bólgu í hálsi, andliti eða munni, hraðan hjartslátt og skerta meðvitund, getur það bent til bráðaofnæmis. Þá skal leita strax á bráðamóttöku eða hringja í 112.

Á heilsuvera.is er að finna leiðbeiningar um skordýrabit. Einnig er þar hægt að hafa samband við hjúkrunarfræðing á netspjallinu og við heilsugæslustöðina sína í gegnum Mínar síður eða símleiðis og fá ráðgjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert