Löggjöfin verður endurskoðuð

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Við vitum að börn skjóta rótum fyrr en fullorðnir og það eru allir sammála um að það skiptir máli að fólk þurfi ekki að bíða í óvissu eftir svörum í of langan tíma,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, um breytingar á reglugerð um útlendinga sem gerð var í dag.

Með reglugerðinni er Útlendingastofnun heimilt, en ekki skylt, að taka upp mál barna sem hafa verið í kerfinu í 10 mánuði eða lengur. „Löggjöfin segir að eftir tólf mánuði skuli stofnunin taka mál þeirra upp en reglugerðin segir að eftir 10 mánuði sé heimilt að líta til þessa og við teljum það í raun fullnægjandi að sinni.“

Þórdís segir um frekari breytingar á löggjöf um útlendinga séu fyrirhugaðar. „Við gerum svo ráð fyrir því að taka löggjöfina til endurskoðunar eins og reglulega er gert og þá verður vilji löggjafans að koma í ljós, til dæmis um hvaða tímamörk eigi að vera þar og fleiri atriði. Þá verður kerfið okkar að vera í stakk búið til að geta staðið við þau tímamörk og þess vegna erum við að leggja til frekari fjármuni til Útlendingastofnunar.“

Þórdís segir að með auknu fjármagni verði hægt að afgreiða mál á skilvirkari hátt „og geta raunverulega forgangsraðað málum, í þágu barna. Við áttum fund í ráðherranefnd þar sem þessi mál voru rædd á heildstæðari hátt og það er mikil áhersla lögð á þá þætti sem snerta málefni barna almennt hjá ríkisstjórninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert