„Þoli engan veginn brottvísun“

Zainab Safari, önnur frá vinstri, ásamt fulltrúum réttindaráðs Hagaskóla, þar …
Zainab Safari, önnur frá vinstri, ásamt fulltrúum réttindaráðs Hagaskóla, þar sem hún hefur stundað nám. mbl.is/Árni Sæberg

Andleg heilsa Zainab Safari, 14 ára stúlku sem til stendur að vísa úr landi á grundvelli útlendingalaga, er svo slæm að frekari áföll geta leitt til uppgjafar hjá henni og þolir hún engan veginn brottvísun úr landi. Þetta kemur fram í nýju læknisvottorði um heilsufar hennar, en Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður Zanaib og fjölskyldu hennar, hefur lagt nýja endurupptökubeiðni í máli hennar fyrir kærunefnd útlendingamála sem byggir á vottorðinu.

Vottorðið ritaði Steingerður Sigurbjörnsdóttir, barnalæknir og barna- og unglingageðlæknir. Magnús segir að í grófum dráttum byggist endurupptökubeiðnin á því að Zainab og Amir, bróðir hennar, þjáist af alvarlegu þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun.

„Með hliðsjón af þessum nýju upplýsingum og breyttu aðstæðum er ljóst að skilyrði til endurupptöku málsins eru uppfyllt. Íslenskum stjórnvöldum er ekki stætt á öðru en að endurupptaka mál þetta án tafar og koma í veg fyrir brottvísun fjölskyldunnar,“ segir í tilkyninningu Magnúsar Davíðs sem telur að brottvísun á þessu stigi væri í senn ómannúðleg og í andstöðu við lög og alþjóðlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda.

Mikilvægt að sálfræði- og lyfjameðferð verði ekki rofin

Í endurupptökubeiðninni er krafa gerð um töku máls fjölskyldunnar og að útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi. Í læknisvottorði um heilsufar Zainab Safari segir að hún þjáist af alvarlegri áfallstreitu, alvarlegu þunglyndi, kvíða og svefntruflun.

„Áfallastreita tengist fyrst og fremst lífsreynslu í Grikklandi. Undirrituð telur að andleg heilsa hennar sé það slæm að frekari áföll geti leitt til uppgjafar hjá henni. Undirrituð er þeirrar skoðunar að Zainab þoli engan veginn brottvísun,“ segir í vottorði Steingerðar.

Um heilsufar Amir Safari segir að hann hafi þegar vengið greiningar um alvarlegt þunglyndi, alvarlega streituröskun, mikinn kvíða og alvarlegan svefnvanda. 

„Undirrituð telur lyfjameðferð við þunglyndi, kvíða og svefntruflun nauðsynlega bæði fyrir Zainab og Amir. Lyfjameðferð er nú hafin og mun undirrituð fylgja meðferðinni þétt eftir [...] Zainab og Amir þurfa bæði markvissa og öfluga sálfræðimeðferð til langs tíma. Sú meðferð er hafin,“ ritar Steingerður. „Afar mikilvægt er fyrir batahorfur Zainab og Amirs að meðferð verði ekki rofin heldur byggt á þeirri meðferð til framtíðar sem nú er hafin,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert