E. coli-smitin má rekja til Efstadals

Alls hafa tíu börn á aldrinum 20 mánaða til 12 …
Alls hafa tíu börn á aldrinum 20 mánaða til 12 ára greinst með sýkingu af völdum E.coli-bakteríu. Níu þeirra smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð. Skjáskot/TripAdvisor

Níu af börnunum tíu sem smitast hafa af sýkingu af völdum E. coli-bakteríu smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð. Fyrsta barnið smitaðist fyrir þremur vikum en eitt barn smitaðist að öllum líkindum af systkini sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis

Alls hafa tíu börn á aldrinum 20 mánaða til 12 ára greinst með sýkingu af völdum E.coli-bakteríu. Fyrst var greint frá að fjögur börn hefðu greinst með alvarlega sýkingu af völdum E.coli-bakteríu og nú hafa sex börn til viðbótar greinst. Þessi sex börn eru ekki alvarlega veik en verða undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins næstu daga. Börnin sem greindust í síðustu viku eru á batavegi. 

E. coli-bakterían sem sýkti börnin finnst einnig í hægðasýni frá kálfum á staðnum. Ekki er vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin en frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standa enn yfir. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun gripu til viðeigandi ráðstafana 4. júlí í góðri samvinnu við staðarhaldara til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar.

Á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 er meðal annars seldur matur og ís. Gestir geta einnig fylgst með bústörfum á meðan snætt er í matsalnum. 

Rétt er að árétta að ekki er talið að smit hafi átt sér stað með vatni í Bláskógabyggð og ekkert bendir til að smitið eigi uppruna sinn annars staðar í sveitinni.

Einstaklingar sem heimsóttu ferðaþjónustuna á síðastliðnum tveimur vikum og fengu niðurgang innan 10 daga frá heimsókninni eru hvattir til að leita til síns læknis varðandi nánari greiningu. Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efstadal 2 þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.

Allir aðilar sem að þessu máli hafa komið vilja ítreka að litið er á þessa sýkingahrinu af völdum E. coli mjög alvarlegum augum og hafa allir lagt sig fram um að upplýsa þetta mál og gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara smit. Þessi atburður gefur einnig tilefni til að árétta mikilvægi almenns hreinlætis og handþvottar við meðhöndlun matvæla og eftir umgengni við dýr, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert