„Réttlætið var að sigra“

Inga Sæland kveðst ánægð með ákvörðun Hæstaréttar að hafna áfrýjunarbeiðni …
Inga Sæland kveðst ánægð með ákvörðun Hæstaréttar að hafna áfrýjunarbeiðni Tryggingastofnunar. mbl.is/Hari

Hæstiréttur hafnaði í dag umsókn Tryggingastofnunar (TR) um leyfi til að áfrýja dómi Landréttar í máli Sigríðar Sæland Jónsdóttur gegn stofnuninni. „Þetta er lokapunkturinn. Þetta er punkturinn fyrir aftan dóm Landsréttar frá 31. maí síðastliðnum,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og dóttir Sigríðar, í samtali við mbl.is. Hún segist vera með annað mál í undirbúningi.

Landsréttur komst að því að TR hafði verið óheimilt að beita skerðingu á kjörum ellilífeyrisþega í janúar og febrúar 2017 án þess að fyrir því hafi verið lagastoð. Var ríkinu gert að leiðrétta greiðslurnar sem nema um fimm milljörðum króna.

„Þetta er bara frábær dagur fyrir okkur. Réttlætið var að sigra, það er bara þannig,“ segir Inga. „Maður er náttúrulega bara glaður. Á sama tíma er þetta áfall fyrir ríkið, þetta eru gríðarlegir fjármunir sem þarf að fara að greiða út.“

„Mér finnst það með ólíkindum hvað er búið að gera þessu máli lítil skil miðað við hvað það er umfangsmikið,“ segir Inga.

Hún kveðst ekki ætla að láta deigan síga þar sem annað mál bíður átekta. „Við erum að fara að stefna ríkinu fyrir hönd öryrkja á grundvelli sextugustu og níundu greinar almannatryggingalaga. Þannig að það er í rauninni allt í gangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert