Þurfa að bíða með konum á leið í ómskoðun

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dæmi eru um að konur sem leita til Landspítala vegna fósturláts eða meðgöngurofs verði fyrir áfalli á biðstofu kvennadeildarinnar, sem nú er sameiginleg öllu kvennadeildarhúsinu, en þar eru m.a. kvenlækningadeild 21A og fósturgreiningardeild.

Konurnar þurfa því oft að bíða á biðstofunni með konum á leið í ómskoðun á meðgöngu og eru dæmi um að þær hitti þar kunningja og séu spurðar óþægilegra spurninga um komu þeirra á spítalann. Þetta staðfestir Kristín Rut Haraldsdóttir, sérfræðiljósmóðir á fósturgreiningardeild Landspítala.

Kristín Rut segir að konum sem missa fóstur eða þurfa að taka ákvörðun um að fara í fóstureyðingu líði oftast ákaflega illa og að fólk á biðstofunni gangi stundum að því vísu að þær séu þungaðar þó að þar séu konur í ýmsum erindagjörðum.

„Þetta er svo erfiður tími, maður vill bara alls ekki hitta neinn og hvað þá að einhver óski manni til hamingju eða eitthvað,“ segir hún.

Breytt vegna plássleysis

Kristín Rut segir að áður hafi sérstök biðstofa verið fyrir tilfelli af þessu tagi en vegna plássleysis hafi móttökunni verið breytt og hún gerð sameiginleg. Var nýja móttökusvæðið tekið í notkun í október 2015 en nýja móttakan var hönnuð með það í huga að skapa róandi andrúmsloft á kvennadeildinni en Kristín Rut segir að margt hafi verið orðið gamalt og lúið á gömlu biðstofunum. Segir hún að fyrir sameininguna hafi konur sem misstu fóstur farið inn um annan inngang og ekki þurft að bíða með þunguðum konum á leið í fósturskoðun.

„En við höfðum áhyggjur af því að svona myndi gerast, þetta er svo lítið land að þetta getur verið mjög óheppilegt. Konunum finnst vont að sitja frammi,“ segir Kristín Rut. „Þú lendir þarna hlið við hlið, önnur með gleðifréttirnar og hin með sorgarfréttirnar. Svo hittir maður kannski skólasystur úr menntaskólanum. Þetta er mjög erfitt.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert