„Erum hvergi nærri hættar“

Markmið sjóðsins er að „standa straum af mál­svarn­ar­kostnaði og mögu­leg­um …
Markmið sjóðsins er að „standa straum af mál­svarn­ar­kostnaði og mögu­leg­um skaðabót­um sem kon­ur kunna að vera dæmd­ar til að greiða ef þær tjá sig um kyn­bundið of­beldi á op­in­ber­um vett­vangi.“ Mynd úr Druslugöngunni árið 2017. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir tuttugu þúsund evrur, um 2,9 milljónir króna, hafa safnast í Málfrelsissjóð til varnar konum sem tjá sig um kynbundið ofbeldi. Þar með hefur markmið þeirra sem standa að fjársöfnun í sjóðinn á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund náðst, þrátt fyrir að tólf dagar séu enn eftir af söfnuninni.

Mark­mið sjóðsins er að „standa straum af mál­svarn­ar­kostnaði og mögu­leg­um skaðabót­um sem kon­ur kunna að vera dæmd­ar til að greiða ef þær tjá sig um kyn­bundið of­beldi á op­in­ber­um vett­vangi.“

Þær Helga Þórey Jóns­dótt­ir, Anna Lotta Michael­sen, Elísa­bet Ýr Atla­dótt­ir og Sól­ey Tóm­as­dótt­ir settu söfnunina af stað skömmu eftir að Oddný Arnarsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir voru dæmdar til þess að greiða tveimur mönnum miskabætur vegna ummæla sem þær létu falla á netinu í tengslum við hið svokallaða Hlíðamál.

„Dropi í hafið“

Elísabet Ýr segir í samtali við mbl.is að þessi tiltekna söfnun muni halda áfram til 22. júlí og að sú lágmarksupphæð sem hafi náðst, 20.000 evrur, sé „í raun dropi í hafið af kostnaðinum við öll þessi mál.“

Hvernig framhaldið verði svo á þessu verkefni, varðandi frekari fjársafnanir og annað, verður að koma í ljós, segir Elísabet.

„Við sjáum til með framhaldið en við erum hvergi nærri hættar, og vonum að fólk haldi áfram að styðja Málfrelsissjóð. Það að lágmarkinu hefur verið náð á svo stuttum tíma sýnir að almenningur styður málfrelsi kvenna,“ segir Elísabet Ýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert