Kjöraðstæður fyrir góða flugútilegu

Frá hátíðinni á síðasta ári.
Frá hátíðinni á síðasta ári. Ljósmynd/Allt sem flýgur

Undirbúningur fyrir flughátíðina Allt sem flýgur á Hellu hefur gengið frábærlega segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands. Matthías var í miðju flugi yfir Suðurlandi þegar blaðamaður mbl.is hafði samband og spurði hann um dagskrá helgarinnar. 

Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 2006 og ætíð við góðar undirtektir. 

„Allur undirbúningur hefur gengið mjög vel. Við komum okkur fyrir á þriðjudaginn og vorum þá að byrja Íslandsmeistaramót sem er að klárast í dag. Ég er reyndar í því núna, er á síðustu brautinni að fljúga hérna yfir Suðurlandið,“ segir Matthías úr háloftunum. 

„Það hefur verið stöðugt að bætast í hópinn og við eigum von á mörgum gestum í dag og það fjölgar í fjölda flugvéla líka. Þetta nær svo hápunkti á morgun þegar karamellukastið verður og þristurinn flýgur yfir svæðið,“ segir Matthías og bætir við að ekki sé við öðru að búast en góðri stemningu.

Allra handa hátíð 

„Síðan eru menn bara almennt að leika sér. Það eru margir með listflugvélar sem munu sýna hvað þeir geta og svo verður varðeldur og kvöldvaka um kvöldið. Þetta er ekkert svo mikið breytt frá því sem hefur verið áður. Þetta byrjar allavega allt saman mjög vel. Það er blíðskapaveður hérna fyrir austan, hlýtt og stillt, bara alveg kjöraðstæður fyrir góða flugútilegu.“

Matthías segir flughátíðan vera fyrir alla sem hafi áhuga á flugi. Hvort sem viðkomandi sé sjálfur flugmaður eða bara áhugamaður sé eitthvað fyrir alla á flughátíðinni á Hellu. 

„Þetta er alveg allra handa. Atvinnuflugmenn, listflugmenn og jafnvel þeir sem eru að læra. Það er bara allur skalinn. Það eru allir velkomnir, bæði þeir sem eru að fljúga á stórum vélum og alveg niður í módel.“

Frá flughátíðinni á síðasta ári.
Frá flughátíðinni á síðasta ári. Ljósmynd/Allt sem flýgur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert