Vilja byggja kastala í Mosfellsbæ

Samkvæmt tillögunni verða allar byggingarnar umhverfisvottaðar og mun fólki þar …
Samkvæmt tillögunni verða allar byggingarnar umhverfisvottaðar og mun fólki þar gefast kostur á að eignast íbúð í sveit þar sem jafnframt eru atvinnutækifæri og afþreying, vinnustofur í bland við kaffi- og veitingahús. Skjáskot/Zeppelin arkitektar

Zeppelin arkitektar hafa sent skipulagsnefnd Mosfellsbæjar tillögu að uppbyggingu á lóð númer átta við Völuteig, en þar vilja þeir hanna og byggja eins konar kastala, safn mishárra turnbygginga sem liggja munu umhverfis stórt torg og ber tillagan vinnuheitið Varmártorg.

Eigandi lóðarinnar, Bílapartasalan ehf., hefur gert samning við Byggingarfélagið Mannverk um þróun og uppbyggingu lóðarinnar, en Zeppelin arkitektar munu vinna tilheyrandi skipulagsvinnu og hanna allar byggingar á lóðinni.

Samkvæmt tillögunni verða allar byggingarnar umhverfisvottaðar og mun fólki þar gefast kostur á að eignast íbúð í sveit þar sem jafnframt eru atvinnutækifæri og afþreying, vinnustofur í bland við kaffi- og veitingahús.

Umrædd lóð er rúmir 7.000 fermetrar og til stendur að nýta 18.000 fermetra ofanjarðar í 150 til 200 íbúðir, auk verslana og veitingastaða. Þá er ráð gert fyrir bílastæðahúsum neðanjarðar.

Útfærslu Varmártorgs er svo lýst í tillögunni, en hér að neðan má sjá myndband frá heimasíðu Zeppelin arkitekta.

„Lágar múrsteinsklæddar byggingar stallast niður brekkuna í lóðinni. Þær mynda kastalaveggina og í þeim verða vinnustofur/íbúðir og t.d. veitingastaðir. Upp úr múrsteinsklæddum byggingunum rísa fjórir turnar, misháir og einfaldir í formi. Tveir lægri turnanna snúa að Varmá en þeir hærri eru ofar í brekkunni. Mátulega rúmt er á milli þeirra og útsýni frá þeim því ágætt. Efstu hæðir verða inndregnar. Turnarnir standa umhverfis stórt og sólríkt torg, þar sem hægt verður að halda samkomur og útimarkaði. Niðurröðun turnanna gerir það að verkum að þeir hylja iðnaðarsvæðið, frá Helgafellslandinu séð.“

„Með því að reisa byggingarnar vel upp yfir iðnaðarbyggingarnar vinnst tvennt; iðnaðarbyggingarnar verða skermaðar af og íbúar turnanna geta notið óhindraðs útsýnis, fjallasýnar og út á Faxaflóa.“

„Byggingarnar eru nokkuð hærri en gengur og gerist í Mosfellsbæ, en aðstæður eru sérstakar og því teljum við leyfilegt að bregða út frá meginreglunni. Húsin eru í útjaðri byggðar og næsti nágranni er iðnaðarsvæðið í Völuteig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert