Álagningarskrá tekur breytingum í ár

Nokkrar breytingar verða gerðar við framlagningu álagningarskrár í kjölfar álits …
Nokkrar breytingar verða gerðar við framlagningu álagningarskrár í kjölfar álits Persónuverndar. mbl.is/Golli

Allar líkur eru á því að engar upplýsingar verði í álagningarskrá RSK um bætur einstaklinga. Þá verða ekki birtar upplýsingar um útvarpsgjald, en upplýsingar um tekjuskatt og útsvar verða á sínum stað. Þetta segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is, en í síðustu viku birti persónuvernd álit sitt á spurningum ríkisskattstjóra í tengslum við framlagningu álagningaskrár. Þá munu engar upplýsingar birtast af hálfu ríkisskattstjóra sjálfs um hæstu greiðendur, en slíkir listar hafa verið sendir fjölmiðlum um árabil. 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri sem áður var tollstjóri.
Snorri Olsen ríkisskattstjóri sem áður var tollstjóri.

Fjölmiðlar hafa sumir hverjir unnið upp úr álagningarskrá, áætlað tekjur einstaklinga og birt á síðum sínum. Í fyrirspurn til RSK var m.a. spurt um ábyrgð RSK á birtingu þessara upplýsinga, heimildir RSK að lögum til að birta tilteknar upplýsingar og hvaða upplýsingar gæti talist réttmætt og málefnalegt að birta til að persónugreina þá einstaklinga sem í álagningarskrá koma fram. 

Þessar spurningar voru lagðar fram með hliðsjón af lagaskyldu RSK til að leggja fram upplýsingar um skatta sem lagðir hafa verið á skattaðila samkvæmt tekjuskattslögum. 

Álagningarskráin lögð fram 19. ágúst 

„Álitið skýrir aðeins tengslin sem eru milli þeirra ákvæða skattalaga sem gilda um birtingu upplýsinga og þau áhrif sem ný lög um persónuvernd hafa á túlkun þeirra ákvæða. Við töldum rétt að óska eftir áliti Persónuverndar á nokkrum málum. Þetta er rakið mjög vel í úrskurðinum,“ segir Snorri.

„Það var ekki síður ástæða til þess að skoða þetta eftir að Persónuvernd kvað upp niðurstöðu sína um birtingu upplýsinga á vefnum,“ segir Snorri og vísar þar til vefsíðunnar tekjur.is þar sem sem upplýsingar úr skattskrám voru birtar gegn gjaldi. Persónuvernd taldi starfsemina óheimila.  

„Þetta hjálpar okkur við að ákveða endanlega hvernig álagningarskráin lítur út, en hún verður lögð fram 19. ágúst,“ segir Snorri, en skráin liggur frammi til 2. september. Vanalega hefur álagningarskráin verið lögð fram í tengslum við álagningu og hefði á þessu ári orðið á fyrstu tveimur vikunum júní. Vegna fyrrgreindra vafamála frestast það nú fram undir september.

Sem fyrr segir hafa upplýsingar um áætlaðar tekjur ýmissa einstaklinga verið birtar í fjölmiðlum í kjölfar þess að álagningarskrá er lögð fram og er þessi þáttur meðal þess sem RSK spurði persónuvernd álits á. Spurður hvort breytingar verði gerðar í tengslum við þennan þátt í framlagningu álagningarskrár segir Snorri að það sé ekki RSK að svara því. 

Tekjublað Frjálsrar verslunar frá árinu 2016. Fjölmiðlar hér á landi …
Tekjublað Frjálsrar verslunar frá árinu 2016. Fjölmiðlar hér á landi hafa áætlað tekjur einstaklinga út frá álagningarskrám. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Persónuvernd segir að það sé ekki einu sinni hennar hlutverk að leggja mat á það hvernig 71. og 74. gr. stjórnarskrárinnar skarast, þ.e.a.s. annars vegar rétturinn til að miðla upplýsingum og hins vegar rétturinn til friðhelgi einkalífs,“ segir hann. „Við munum leggja fram skrána, en það er ekki okkar að svara hvort menn megi birta upplýsingar úr henni,“ segir Snorri. 

Engar upplýsingar um bætur

Snorri segir að við birtingu álagningarskrár verði nú ýmsar breytingar ekki inni sem þar hafa áður verið. „Upplýsingar um útvarpsgjald verða ekki þarna inni. Síðan eru allar líkur á því að þarna verði engar upplýsingar um bætur,“ segir hann. Þá verða ekki upplýsingar í álagningarskrám um það hvort einstaklingar hafi óskað eftir tryggingu við heimilisstörf líkt og áður var. 

„Skráin verður breytt, en hún verður þó með þær upplýsingar sem skipta mestu fyrir þá sem hafa haft áhuga á upplýsingum um tekjur einstaklinga. Þarna verða upplýsingar um álagða skatta og álagt útsvar,“ segir Snorri. 

Meðal þess sem persónuvernd tók til í áliti sínu var að upplýsingar um nafn, heimilisfang og fæðingardag nægðu til að tryggja örugga persónugreiningu við framlagningu álagningarskráa. Snorri segir að ekki muni birtast kennitölur skattaðila. „Það verða upplýsingar um afmælisdag og fæðingarár, en ekki full kennitala,“ segir hann og bætir því við að síðustu ár hafi heldur ekki verið birt full kennitala. 

Skýrar lagaheimildir séu meginatriðið

Persónuvernd telur RSK bresta heimild að lögum til þess að birta upplýsingar um útvarpsgjald, en gjaldið er lögbundið og skýrt liggur fyrir hverjir greiða þau og hverjir ekki. Hingað til hafa upplýsingar verið birtar um greiðslu útvarpsgjalds í álagningarskrám.

„Túlkunin er þannig að það ætti raunverulega ekki að birta neitt nema það sé skýrt ákvæði í lögum um að það eigi að birta það,“ segir Snorri og vísar til persónuverndarlaganna og mannréttindaákvæðis stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs. 

„Eins og með önnur mannréttindi þá breytist þetta og þarna segja menn raunverulega að til þess að við birtum upplýsingar um einkahagi fólks, þá verði að vera skýr lagaheimild til þess. Þetta er ekki spurning um hvort okkur langar til þess eða eitthvað annað, það þarf bara að vera skýr heimild til þess,“ segir Snorri og bætir því við að vegna þessa hafi verið ákveðið að leggja í þá vegferð að rýna umrædd ákvæði, til þess að komast að því hvort skýrar heimildir væru fyrir birtingu.

„Það sem skiptir mestu máli, ef menn eru á annað borð að velta fyrir sér þessum upplýsingum, er auðvitað álagður tekjuskattur og útsvar. Hvort einhver borgi útvarpsgjald, skiptir það máli? Kannski ekki,“ segir Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert