Andlát: Hjörtur Ármann Eiríksson

Hjörtur Ármann Eiríksson
Hjörtur Ármann Eiríksson

Hjörtur Ármann Eiríksson, fv. framkvæmdastjóri Iðnaðardeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga og síðar Vinnumálasambands samvinnufélaga, er látinn, 90 ára að aldri.

Hjörtur lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 13. júlí sl. Hann fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1928 og var yngsta barn hjónanna Eiríks Hjartarsonar, rafmagnsfræðings og skógræktarfrömuðar, og Valgerðar Kristínar Ármann húsfreyju sem fyrir áttu sjö dætur. Hjörtur ólst upp í Laugardalnum þar sem faðir hans hóf skógrækt en þar er nú Grasagarður Reykjavíkur.

Hjörtur tók verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands 1946 og fór þá til náms í Englandi og starfaði fyrir Loftleiðir í London að námi loknu. Hann nam ullarfræði við Háskólann í Aachen í Þýskalandi á árunum 1953-1956.

Hjörtur starfaði nær allan sinn starfsaldur fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga. Hann gegndi mörgum nefndar- og ábyrgðarstörfum, m.a. fyrir ullarráð Íslands, fagráð textíliðnaðarins og iðnaðarráðuneytið. Skógrækt var honum hugleikin eins og föður hans og ræktun landsins hans hjartans mál. Hjörtur Ármann var umdæmisstjóri fyrir Rótarý árið 1973 og síðar gerður að heiðursfélaga klúbbsins.

Hjörtur Ármann giftist 17. júní 1957 Þorgerði Septínu Árnadóttur, húsmóður og myndlistarkonu, f. 8. maí 1928, d. 3. maí 2002. Börn þeirra eru fjögur, barnabörn átta og barnabarnabörn sex.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert