Bætist í jarðasafn Fljótabakka

Í Svarfaðardal.
Í Svarfaðardal.

Fljótabakki ehf., sem er íslenskt dótturfélag bandaríska ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience sem rekur m.a. ferðaþjónustuna Deplar Farm í Fljótunum, hefur keypt jörðina Atlastaði í Svarfaðardal.

Þetta staðfestir Haukur Bent Sigmarsson, framkvæmdastjóri Fljótabakka. Til stendur að vera þar með ferðaþjónustu sem tengist annarri starfsemi fyrirtækisins á Norðurlandi.

Atlastaðir eru næstfremsti bær í Svarfaðardal, rúma 20 kílómetra frá Dalvík. Gengið var frá kaupunum í síðasta mánuði og segir Haukur kaupverðið vera trúnaðarmál.

Síðasta haust bárust spurnir af því að Fljótabakki hefði keypt jörðina Hraun í Fljótum og hygðist koma þar upp ferðaþjónustu. Skömmu áður hafði félagið keypt land Nefsstaða við Stífluvatn í Fljótum. Þá á félagið jarðirnar Knappsstaði, Steinavelli og Stóru-Brekku í Fljótunum, auk Depla. Haukur segir að tilgangurinn með þessum jarðakaupum sé fyrst og fremst að styðja við þá starfsemi sem er á Deplum; gestir þar fari í ýmsar afþreyingartengdar ferðir um Norðurland eins og t.d, þyrluskíðamennsku, göngu- og hjólaferðir og þeir dvelji þá á þessum stöðum.

Eleven Experience sérhæfir sig í svokallaðri fágætisferðaþjónustu fyrir efnaða ferðamenn. Auk Íslands er fyrirtækið með ferðaþjónustu á níu stöðum; í Síle, Frakklandi og á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, segist ekki tilbúin til að tjá sig um kaupin að sinni. „Við í sveitarstjórninni vissum ekki af þessum kaupum fyrr en þau voru um garð gengin. Það er svo sem ekkert óeðlilegt við það, þar sem sveitarfélagið á ekki forkaupsrétt að jörðinni,“ segir Katrín í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert