Kallaði fúkyrði að konunum þremur

Málið er rannsakað sem hatursglæpur í miðlægri deild lögreglunnar á …
Málið er rannsakað sem hatursglæpur í miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert

Atvikið þar sem veist var að þremur múslimakonum í gærkvöldi átti sér stað fyrir utan Bónus-verslunina í Lóuhólum um kl. 18. Málið er rannsakað sem hatursglæpur í miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lýsir því í svari við fyrirspurn mbl.is að íslensk kona hafi kallað „einhver fúkyrði“ að konunum þremur, sem þær hafi ekki skilið sjálfar, og fylgt þeim út á bílastæði við verslunarkjarnann.

Þar fóru konurnar þrjár inn í bifreið sína og í burtu. Vinkona kvennanna tilkynnti atvikið svo til lögreglu og í kjölfarið voru konurnar boðaðar á lögreglustöð, þar sem þær ræddu við lögreglumenn um tveimur tímum eftir að atvikið átti sér stað.

Lögregla kom á staðinn eftir að tilkynning barst, en þá voru bæði konurnar og gerandinn á bak og burt. Að sögn Gunnars eru engar upplýsingar um gerandann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert