Skilyrði til endurgreiðslu verði þrengd

Áform eru uppi um að eingöngu verði endurgreitt fyrir leiknar …
Áform eru uppi um að eingöngu verði endurgreitt fyrir leiknar kvikmyndir, leikið sjónvarpsefni og heimildarmyndir. Spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir fái ekki endurgreitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áformað er að þrengja þau skilyrði sem uppfylla þarf til að fá endurgreiðslu kostnaðar vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi, að því er fram kemur á vef samráðsgáttar stjórnvalda. Þannig stendur til að leggja aukna áherslu á að laða erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi. 

Lög um málefnið voru upphaflega sett til að koma á fót hvatakerfi til eflingar kvikmyndaiðnaðar á Íslandi og  til að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn, en kerfið felur í sér ríkisaðstoðarkerfi. Kveðið er á um það í lögunum að endurgreiðsla skuli vera 25% af framleiðslukostnaði.

Starfshópur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skilaði í vor skýrslu til ráðherra þar sem lagt var til að þak yrði sett á ársgreiðslu til einstakra verkefna, að krafa verði gerð um að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin á milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari. 

Spjall-, raunveruleika- og skemmtiþættir fái ekki greitt

Þá er lagt til að breyta lögum og reglugerð þannig að skilyrði fyrir endurgreiðslu takmarkist við kvikmyndir í fullri lengd, leiknar sjónvarpsmyndir eða röð leikinna sjónvarpsþátta og heimildarmyndir. Ef af þessum breytingum verður falla út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir, en á undanförnum árum hafa endurgreiðslur til slíkra þátta aukist töluvert,“ segir í samráðsgáttinni.

Með þessum tillögum er bæði lögð áhersla á bætta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til endurgreiðslna og á lækkun heildarupphæðar endurgreiðslna. Tillögurnar miða að því að horfa í auknum mæli til upphaflegs markmiðs og tilgangs laganna og gera viðeigandi breytingar á kerfinu með það fyrir augum að gera greinina sjálfbærari til lengri tíma," segir í samráðsgáttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert