Enginn skráð boðsmiða nema Pawel

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, heldur úti eigin hagsmunaskráningu, en sér …
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, heldur úti eigin hagsmunaskráningu, en sér ekki ástæðu til að skikka aðra í að gera slíkt. Margir boragarfulltrúar segja, í samtali við mbl.is, að framtakið sé til eftirbreytni þótt þeir breyti ekki eftir því. mbl.is/Eggert

Skrifstofa borgarstjórnar lítur svo á að boðsmiða á viðburði þurfi ekki að skrá í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa nema virði þeirra sé yfir 50.000 krónum. Þetta kemur fram í svari skrifstofunnar við fyrirspurn mbl.is

Í siðareglum borgarstjórnar kemur fram að geta þurfi allra boða í heimsóknir og ferðir, en þegar um gjafir er að ræða þarf aðeins að geta þeirra ef virði þeirra nær 50.000 krónum. Borgin lítur hins vegar svo á að boðsmiðar á viðburði séu ekki ferðir eða heimsóknir, heldur gjafir og falli því undir 50.000 króna viðmiðið.

Raunar er það svo að skrifstofan tekur ekki við skráningum undir þessu viðmiði, til þess að borgarfulltrúar séu undir sömu sökina seldir og boðsmiðar birtist ekki hjá einum, en öðrum ekki.

Aðeins Dagur og Dóra farið í ferðir

Þessu virðast flestir borgarfulltrúar hafa fylgt, því í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa eru aðeins tveir borgarfulltrúar sem skrá nokkuð undir liðinn Ferðir eða heimsóknir. Það eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem hefur farið tvisvar til Kína og einu sinni til Bandaríkjanna í störfum sínum, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, sem hefur farið til Færeyja og Austurríkis.

Borgarfulltrúum er reglulega boðið á viðburði, svosem leiksýningar, listasýningar og íþróttaleiki. En þeir hafa sumsé ekki ratað í hagsmunaskráninguna vegna fyrrnefnds viðmiðs um að þeir teljist gjafir, ekki ferðir.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjórnar teljist Ferðir og heimsóknir vera ferðir með ferðakostnaði, oftar en ekki erlendis, þar sem utanaðkomandi aðili greiði ferðakostnað.

Fjölmiðlar hafa fjallað um boðsmiða sem borgarstjóri þáði á tónlistarhátíðina Secret Solstice í Laugardal, sem fram fór í júní. Öllum borgarfulltrúum var reyndar boðið á hátíðina og þáðu einhverjir boðið, þeirra á meðal Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, og Pawel Bartoszek. Egill birti mynd af þríeykinu á Facebook og virtist fara vel á með þeim.

Heldur sína eigin hagsmunaskrá

Þá er rétt að geta þess að Pawel Bartoszek, núverandi forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Viðreisnar, heldur úti sinni eigin hagsmunaskráningu þar sem hann segist skrá allar gjafir og viðburði sem hann þiggur boð á, hvort sem þær beri að skrá í hina hefðbundnu hagsmunaskráningu eða ekki. Hana má finna hér, og er boðsmiðinn á Secret Solstice þar á meðal.

Pawel segir að honum hafi þótt gott að mæta og sjá með eigin augum hvernig hátíðin færi fram. Hrósar hann skipuleggjendum fyrir stranga öryggisgæslu, einkum þegar kom að áfengi. Enginn hafi fengið að kaupa áfengi armbandslaus, ekki einu sinni Egill borgarfulltrúi sem þurfti að sækja sér sérstakt áfengisarmband áður en hann gat keypt einn bjór á barnum. Þá hafi gestum verið bannað að kaupa fleiri en einn drykk í einu, og þeim reglum fylgt.

Þessa mynd birti Egill af borgarfulltrúum sem mættir voru á …
Þessa mynd birti Egill af borgarfulltrúum sem mættir voru á Solstice. Skjáskot/Facebook

Aðspurður segist Pawel hafa ákveðið að setja sjálfum sér þá reglu að skrá allar heimsóknir, fundi og viðburði sem hann sækir. Hann sér þó ekki ástæðu til að skikka alla borgarfulltrúa til þess, en segir að skoða megi að lækka 50.000 króna viðmiðið sem í gildi sé.

Algjör óþarfi að kynna sér aðstæður

Í samtali við mbl.is segir Egill að hann telji skynsamlegt fyrir borgarfulltrúa að þiggja boðið og kynna sér aðstæður á hátíðinni, enda sé hún í miðri borg og styrkt úr sjóðum borgarinnar. Hann segir að allt eins mætti gagnrýna þá sem heima sitja í stað þess að kanna þar aðstæður.

Í annan streng tekur þó Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sem segist ósátt við hátíðina en að hún hafi ekki séð nokkra ástæðu til að mæta þangað og sjá af eigin raun hvernig hátíðarhöld færu fram. Tíma borgarfulltrúa sé betur varið í annað, en hátíðin fór fram á föstudags- og laugardagskvöldi.

Margir borgarfulltrúar fóru á mis við þessa veislu.
Margir borgarfulltrúar fóru á mis við þessa veislu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, þáði heldur ekki boðið. Hún hefur einnig verið gagnrýnin á hátíðina á þessum stað en sá ekki ástæðu til að skoða aðstæður. Hún treysti á skýrslur frá yfirvöldum um það. Hún vill þó ekki gagnrýna þá borgarfulltrúa sem þekktust boðið; hver verði að gera það upp við sig.

Dóra Björt, borgarfulltrúi Pírata, mætti á hátíðina og skoðaði sig vel um. Tók hún saman nokkrar ábendingar um það sem betur mætti fara, og gerði meðal annars athugasemd við aðgengi gesta að fersku vatni.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna þáði boðið ekki, en tekur í sama streng og Pawel og Dóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert