Víða þokubakki nú í bítið

Léttir til í dag og sólin hitar upp loftið við …
Léttir til í dag og sólin hitar upp loftið við yfirborðið og leysir upp þokuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlýtt og rakt loft er yfir landinu, víða rigndi síðustu nótt sem leiðir til þokubakka sem finna má víða nú í bítið, einkum þar sem vindur andar af hafi.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands, en þar segir að víðáttumikil lægð sé suður af Reykjanesi og vindur því austlægur en hægur. Dálítið lægðardrag er við Snæfellsnes og vindur því norðlægari við Faxaflóa.

Léttir til í dag og sólin hitar upp loftið við yfirborðið og leysir upp þokuna, en þar sem loft er óstöðugt tekst henni einnig að stuðla að skúrum og jafnvel nokkrum kröftugum skúradembum inn til landsins síðdegis.

Austan til á landinu má búast við þungbúnu veðri með dálítilli rigningu eða súld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Norðaustan 5-13 m/s og súld eða rigning, en bjart með köflum vestan til á landinu. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Suðvesturlandi. 

Á föstudag:
Norðaustan 5-13 og rigning eða súld, en úrkomulítið suðvestan til á landinu. Hiti breytist lítið. 

Á laugardag:
Austan 5-10. Víða skúrir síðdegis, en lengst af súld suðaustan til og þurrt á Vestfjörðum. Hiti víða 10 til 18 stig, hlýjast vestanlands. 

Á sunnudag:
Austanátt og rigning með köflum, en þurrt um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Austlæg átt, dálítil væta en þurrt vestan til á landinu. Hiti 10 til 18 stig. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir ákveðna austan og norðaustan átt með rigingu, en úrkomulítið suðvestan til á landinu. Hiti breystist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert