Mega eiga von á 150 milljóna kröfu

TF-GPA, vél ALC, er laus úr haldi. Myndin er tekin …
TF-GPA, vél ALC, er laus úr haldi. Myndin er tekin í morgun. Ljósmynd/ALC

Isavia má eiga von á um 150 milljóna króna skaðabótakröfu vegna kyrrsetningar Isavia á flugvél í eigu ALC, sem áður var í leigu Wow Air. Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, segir „yfirgnæfandi líkur“ á að skaðabótamál verði höfðað á hendur ríkisfyrirtækinu vegna þess tjóns sem hlaust af kyrrsetningunni. ALC hafði þegar samið við annað fyrirtæki um að taka vélina á leigu eftir að Wow Air varð gjaldþrota, en segja varð þeim samningi upp þar sem vélin var í haldi.

Héraðsdóm­ur Reykja­ness úr­sk­urðaði í gær að ALC þyrfti aðeins að greiða þá upp­hæð sem væri tengd vél­inni en ekki all­ar skuld­ir annarra flug­véla á veg­um WOW air við Isa­via. ALC var talið hafa sýnt fram á greiðslu allra skulda sem tengd­ar voru vél­inni og því voru fé­lag­inu veitt umráð yfir vél­inni. Kom sérstaklega fram í dómnum að réttaráhrifum yrði ekki frestað þótt málinu yrði áfrýjað, það er að ALC héldi yfirráðum sínum yfir vélinni þótt málið færi á næsta dómstig, til Landsréttar.

Þeim úrskurði hyggst Isavia ekki una. Af fjölmiðlum í gær mátti skilja sem svo af málflutningi forsvarsmanna Isavia að framkvæmd réttaráhrifanna yrði sérstaklega áfrýjað. „Það er hins vegar annaðhvort spuni eða misskilningur,“ segir Oddur. Ekki sé hægt að áfrýja þeim hluta neitt sérstaklega, og Isavia hafi einfaldlega áfrýjað úrskurðinum í heild sinni.

Isavia hefur nú tvær vikur til að leggja fram gögn í málinu, og þegar þau liggja fyrir hefur ALC viku til að skila sínum gögnum. „Þessir frestir eru bundnir í lög og þeim verður ekki breytt,“ segir Oddur. Að svo búnu er málið dómtækt. Því er ljóst að nokkrar vikur hið minnsta líða þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir, hvað svo sem flýtimeðferð líður.

Sýslumaður staðfesti gerðina í morgun

Oddur, lögmaður ALC, og lögmenn Isavia mættu á fund sýslumanns í morgun þar sem sýslumaður ákvað að gerðin skyldi fara fram nú þegar í samræmi við úrskurð héraðsdóms, á mannamáli að Isavia skyldi láta af öllum tálmum við vélina og hleypa henni í loftið. Síðustu rúma þrjá mánuði hefur stórvirkum vinnuvélum verið lagt fyrir framan og aftan vélina til að hindra að réttmætir eigendur hennar fljúgi henni úr landi. Nú hafa þær verið færðar og segir Oddur að vélin fari í loftið um leið og flugvirkjar eru búnir að koma henni í flughæft ástand.

Það næst líklegast ekki í dag, en kannski á morgun. „En um leið og vélin er komin úr landi þá fellur þetta mál um sjálft sig,“ segir hann. „Íslenskir dómstólar hafa bara lögsögu á Íslandi.“ 

Vinnuvélum Isavia var lagt framan við vélina svo hún færi …
Vinnuvélum Isavia var lagt framan við vélina svo hún færi hvergi. Þær eru nú farnar. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert