Sagt upp vegna klámmyndbands

Samkvæmt frétt Austurfréttar hafði parið gert sambærileg myndbönd á ferðum …
Samkvæmt frétt Austurfréttar hafði parið gert sambærileg myndbönd á ferðum sínum um heiminn og hlaðið þeim upp á vinsæla klámsíðu. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Klámmyndband sem tekið var upp í heimavistarhúsi Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað rataði inn á vinsæla erlenda klámsíðu í stuttan tíma í lok júní.

Myndin var verk starfsmanns við hótel sem rekið er í heimavistarhúsinu yfir sumartímann og maka hans. Starfsmanninum var sagt upp í kjölfarið, eftir að athugulir Norðfirðingar ráku augu í myndbandið á flakki sínu um veraldarvefinn.

Um þetta er fjallað á vef Austurfréttar í dag og haft er eftir Hákoni Guðröðarsyni hótelstjóra að um leið og vitneskja hafi borist um myndbandið hafi stjórnendur hótelsins farið fram á að það yrði fjarlægt af klámsíðunni og gengið frá starfslokum starfsmannsins.

Samkvæmt frétt Austurfréttar hefur parið gert sambærileg myndbönd á ferðum sínum um heiminn og hlaðið þeim upp á vinsæla klámsíðu.

Ónafngreindur Norðfirðingur sem séð hafði myndbandið segir það hafa verið „saklaust í byrjun“ en síðan hafi það orðið „sífellt blárra og loks alveg dökkblátt“.

Viðmælendur Austurfréttar í Neskaupstað segjast sérstaklega spenntir yfir því að sjá hvernig þessu atviki verði gerð skil á þorrablóti bæjarins í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert