Sveigjanlegt kerfi skýrir brottfall

Of fáir sækja í listnám og annað verknám, að mati …
Of fáir sækja í listnám og annað verknám, að mati Stellu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið brottfall íslenskra námsmanna úr framhaldsskóla- og háskólanámi má að hluta skýra af sveigjanlegu námskerfi. Nemendur geta hætt námi þegar þeim sýnist vitandi að þeir hafi alltaf möguleikann á að byrja aftur síðar, þótt þeir geri það ekki endilega.

Þetta segir Kristín Stella Blöndal, dósent í uppeldis- og menntunarfræðum við HÍ, innt eftir skýringum á niðurstöðum könnunar Eurostat, evrópsku hagstofunnar, sem birtar eru á vef upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um brottfall úr námi. Ísland kemur illa út úr samanburðinum og er brottfall nær tvöfalt á við meðaltal Evrópu.

Stella segist þó telja sveigjanleikann af hinu góða. Fólk læri af mörgu öðru en að sitja á skólabekk. Önnur skýring getur verið sú að næga vinnu er að hafa hér á landi, en hlutfall ungs fólks sem hvorki er í námi né vinnu er óvíða lægra en hér, um 5%.

Hátt hlutfall brottfalls sé þó ekki gott, og til að bregðast við vandanum þurfi að auka náms- og starfsfræðslu (e. career guidance) í skólum. Stella bendir á að um slíkt sé kveðið í grunn- og framhaldsskólalögum en því sé illa sinnt. Í Finnlandi sé slík fræðsla til að mynda hluti af námsskrá nemenda á efsta stigi grunnskóla og þeir sæki vikulega tíma þar sem þeir séu fræddir um ólíka kosti við frekara námsval.

„Það er alltof mikil áhersla á bóknám á Íslandi og við sem höfum gert langtímarannsóknir á þessu sviði í mörg ár sjáum að krakkar velja sér oft nám þvert um geð því þeir vita ekki almennilega hvað stendur til boða.“

Kristjana Stella Blöndal.
Kristjana Stella Blöndal. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Alltof fáir í verknámi

Í íslenskum rannsóknum á brottfalli úr framhaldsskóla hefur komið í ljós að einungis um helmingur nemenda hefur lokið námi fjórum árum eftir að það hófst, en þá hefðu nemendur á áætlun átt að vera búnir. Menntaskólinn hefur reyndar nýverið styttur í þrjú ár, en rannsóknirnar eru eldri en svo. Að sjö árum liðnum er hlutfall útskrifaðra um 70%.

Segir Stella áberandi að þeir nemendur í bóknámsskólum, sem í nafnlausum könnunum segjast hafa velt fyrir sér að skipta yfir í verknám, standi mun verr að vígi og ljúki síður námi.

Börn sem komi úr fjölskyldum þar sem rík hefð sé fyrir námi í bóknámsskólunum gömlu, MR, MA og MH til dæmis, þekki oft ekki annað og velti ekki fyrir sér að sækja í verknám. Hún nefnir að í Noregi séy framhaldsskólanemar nokkur veginn til helminga í bóknámi og verknámi. Á Íslandi sé hlutfall verknema hins vegar um 10% meðal stráka og 6% meðal stelpna, og hafi farið úr 20% og 10%, í þessari röð, fyrir um áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert