Bandaríkjaher ræðst í útboð fljótlega

Bandarískur landgönguliði, hér við æfingu á á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli …
Bandarískur landgönguliði, hér við æfingu á á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli síðasta haust, er Trident-heræfing Atlanthafsbandalagsins fór fram. mbl.is/Árni Sæberg

Bandaríkjaher hefur tilkynnt um fyrirhugað útboð á hönnun og framkvæmdum við þau mannvirki sem herinn hyggst reisa á Keflavíkurflugvelli, en eins og greint var frá í síðasta mánuði stendur til að stækka flughlað innan öryggisvæðisins á vellinum, reisa færanlegar gistieiningar og færa flughlað fyrir hættulegan farm.

Samanlögð kostnaðaráætlun vegna þessara þriggja verka hljóðar upp á 49,53 milljónir bandaríkjadala, eða um það bil 6,2 milljarða íslenskra króna.

Ríkiskaup birta í dag auglýsingu í atvinnublaði Morgunblaðsins fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslu Íslands, þar sem fjallað er um fyrirhugað útboð. Þar kemur fram að bandarísk yfirvöld muni einungis semja við íslensk eða bandarísk fyrirtæki um framkvæmdirnar.

Þá segir einnig að þar sem framkvæmdirnar séu að öllu leyti fjármögnuð af Bandaríkjamönnum, lúti þær ekki íslenskum lögum og reglum um opinber innkaup.

Það kom mörgum í opna skjöldu í júní er fjallað var um fyrirhugaðar framkvæmdir Bandaríkjanna, sem mátti lesa um í fjárhagsáætlun hersins fyrir árið 2020, en um er að ræða fyrstu uppbyggingaraðgerðir af hálfu Bandaríkjahers hér landi frá árinu 2006.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is að þessar fyrirætlanir hefðu þó legið fyrir alveg frá 2016, þegar íslensk og bandarísk stjórnvöld undirrituðu samkomulag um aukna viðveru Bandaríkjamanna og síðan frá 2017, þegar teknar voru ákvarðanir um viðhaldsframkvæmdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert