Skorað á sjálfstæðismenn að kjósa annað

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Staðreyndin er sú að það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fer allur sem einn á bak við mál, sem fyrst og fremst á stuðning meðal Samfylkingarflokkanna, og er að auki í andstöðu við vilja landsfundar.“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, á facebooksíðu sinni í dag, en tilefnið eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar MMR þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19% fylgi sem er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins.

„Því miður óttaðist ég að júlímæling MMR yrði í þessa átt,“ segir Elliði. „Mér hefur enda fundist það vera nánast áskorun á sjálfstæðismenn að kjósa eitthvað annað þegar fullyrt hefur verið: „Þetta mál (Orkupakki 3) hefur ekki haft áhrif á fylgið“.“

Elliði sagði nýverið að átök, líkt og geisað hafa innan Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þurfi ekki að vera ógnvekjandi. Í átökum geti falist tækifæri til þess að leiðrétta kúrsinn þar sem þess væri þörf.

Þá hefur Elliði einnig lýst áhyggjum af eðli EES-samningsins sem feli í sér aðlögun að Evrópusambandinu og velt því upp hvort ekki sé ástæða fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins að vera hugsi yfir því að stuðningur við þriðja orkupakkann komi aðallega úr röðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata samkvæmt könnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert