Skipin greiði ígildi gistináttagjalds

Skemmtiferðaskip kemur að bryggju á Íslandi. Farþegarnir sem komu með …
Skemmtiferðaskip kemur að bryggju á Íslandi. Farþegarnir sem komu með slíkum farkosti hingað til lands voru á fimmta hundrað þúsunda í fyrra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Árið 2018 komu 440.997 farþegar um borð í skemmtiferðaskipum til landsins. Ekki kemur í ríkissjóð gistináttaskattur fyrir afnot þessara ferðamanna af innviðum landsins, þeir fara jafnan í land á daginn, og ekki er greiddur virðisaukaskattur fyrir þær vörur sem skipið kaupir í landi og eru síðan seldar farþegum skipanna um borð þegar skipið hefur lagt úr höfn.

Þessi skip fara með ströndum á milli hafna og farþegarnir gista um borð í skipunum. Skipin versla virðisaukaskattfrjálst við innlenda birgja þar sem þau ferðast á milliríkjagrundvelli en geta farið hringinn í kringum landið með þeim hætti. Þannig njóta þessir farþegar þeirra sérrettinda að greiða ekki þessi gjöld, aðeins vegna þess að þeir eru um borð í skemmtiferðaskipi, að mati sumra.

„Til þess að gæta að samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja höfum við verið að hvetja til þess með jöfnu millibili að athugað sé með hvaða hætti er hægt að skattleggja farþega á skemmtiferðaskipum, svo að þeir greiði ígildi gistináttagjalds og réttmætan virðisauka af þeirri starfsemi sem á sér stað hér á landi,“ segir Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar.

Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir tilefni til …
Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir tilefni til að skoða hvernig mætti skattleggja starfsemi skemmtiferðaskipa til jafns við það sem þjónusta í landi býr við.

„Í þessu er lykilatriði að greinarnar sitji við sama borð. Ef enn er ekki búið að leggja sérstök gjöld á ferðamenn hér almennt, af hverju ætti að leggja þau á þessa farþega sérstaklega?“ spyr Pétur Ólafsson, hafn­ar­stjóri á Ak­ur­eyri og formaður samtakanna Cruise Iceland.

Kom þrýstingur einhvers staðan frá

Það var rætt árið 2012 að koma á einhvers konar skattlagningu á hvern farþega sem kæmi með skemmtiferðaskipi. „Þær tillögur eru einhvers staðar inni í fjármálaráðuneyti og ég get ekki svarað því af hverju ekki var farið í gegn með þær,“ segir Gunnar.

„Það hlýtur að hafa komið þrýstingur einhvers staðan frá,“ segir hann.

Hann fagnar því að vakið sé máls á því enn á ný að taka upp einhvers konar gjald á hvern ferðamann sem gisti í skipi við strendur Íslands. Á sínum tíma hafi staðið til að taka upp „pax tax“ svokallaðan, skatt sem myndi virka sem ígildi virðisaukaskatts og gistináttagjalds. Hver upphæðin yrði væri útfærsluatriði. 

Gunnar Valur segir fyrst og fremst þörf á því að ræða þessi gjöld út frá spurningum um samkeppnisumhverfi. „Þá er fullkomlega eðlilegt að farþegar þessara skipa greiði gjald af þessum toga rétt eins og aðrir greiða virðisauka og gistináttagjald af gistingu í landi. Annars hallar á gistiþjónustu í landi,“ segir Gunnar.

Þarf einfaldlega samræmi

Þeir sem standa að baki Cruise Ice­land eru hafn­ir lands­ins, skipaum­boðsmenn, ferðaþjón­ustuaðilar, rútu­fyr­ir­tæki, birgjar og þjón­ustuaðilar. Pétur Ólafsson áðurnefndur formaður þeirra samtaka segir að gjald sé þegar tekið af þeim sem ferðast um landið á skemmtiferðaskipum, meðal annars með hafnargjaldinu sem skipin greiða og svo öðrum gjöldum, eins og vitagjöld til ríkisins og tollafgreiðslugjald.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri og formaður samtakanna Cruise Iceland, …
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri og formaður samtakanna Cruise Iceland, segir að gæta verði samræmis ef leggja skal á gistináttagjald. Það megi ekki aðeins leggjast á farþega skemmtiferðaskipa. Mynd/Pétur Ólafsson

„Það er ekki búið að setja nein sérstök komugjöld á farþega sem koma til landsins með flugi en ef það yrði gert hægt að gera það sama við farþega í skemmtiferðaskipum. Þar þarf einfaldlega að vera samræmi í hlutunum,“ segir Pétur. 

Hann tekur einnig fram að eðlilegt sé á sinn hátt að skipafarþegarnir, sem ekki gisti í landi, borgi ekki gistináttagjald. Þó sé það meira að segja svo, að árlega kaupi farþegar sem hingað koma með skemmtiferðaskipum um 40-50 þúsund gistinætur hjá gistiþjónustu í landi. Það sé hliðarávinningur af starfseminni.

„Það eru hvort eð er sárafá skipin sem myndu falla undir þetta ef út í þetta væri farið, því skipin eru flest með upphafsstað annars staðar og endastað annars staðar. Þetta félli bara undir þau skip sem hefja ferð sína á Íslandi og enda á Íslandi,“ segir Pétur og segist því ekki sjá að ávinningurinn yrði mikill af því að taka sérstök gjöld af skemmtiferðaskipum með þessum hætti, ef það yrði yfir höfuð gert.

Að auki segir Pétur að hótel njóti umtalsverða tekna vegna farþega í hringsiglingum og í tengslum við farþegaskipti. „Þetta eru farþegar sem gista á dýrum hótelum í Reykjavík og myndu ekki gera það nema af því að þeir eru að fara um borð í skip. Ég hef ekki hitt neinn hóteleiganda úti á landi sem telur sig hafa miss spón úr aski sínum út af því að gestir gista um borð í skipum,“ segir hann.

„Þessir farþegar væru ekki að ferðast í rútu í kringum landið, heldur væru þeir í siglingum í öðrum löndum ef við vildum hrekja þá í burtu með ofurskattlagningu,“ segir Pétur loks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert