Ferðaþjónustan virðir ekki íslenska nafnahefð

Guðni Ágústsson spyr hvort erlendar nafngiftir í íslenskri ferðaþjónustu séu …
Guðni Ágústsson spyr hvort erlendar nafngiftir í íslenskri ferðaþjónustu séu gefnar af illri nauðsyn eða gáleysi? mbl.is/Ómar Óskarsson

Hefur Fontana einhvern árangursdrifinn kraft fram yfir Gömlu-Gufuna? Er Hótel Rangá eitthvað verr sett með sitt nafn á íslensku? Eða Hálendismiðstöðin Hrauneyjar? spyr Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. 

Guðni leggur þar út frá aðvörun Örnefnanefndar um þá þróun að nefna íslensk nöfn í náttúrunni upp á ensku. „Það er eins og ferðaþjónustan telji sig þurfa að enskugera nöfn á landslagi og hótelum. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra hvað íslenskuna varðar. Og spurt er, til að þjóna hverjum? Ekki erlendum ferðamönnum fullyrði ég, þeir eru hingað komnir til að kynnast menningu lands og þjóðar og telja örugglega þennan nýja sið til skaða fyrir alla, horft til framtíðar, söguna, menninguna og magnaða nafngiftagjöf í náttúrunni við upphaf Íslandsbyggðar. Og nafngiftinni fylgdu oft merkilegar sögur og sum nöfnin urðu meira að segja alþjóðleg eins og Geysir,“ segir Guðni í grein sinni.

„Af handahófi tek ég hér nokkur ný nöfn á hótelum og þjónustustöðum í ferðaþjónustu: ION Adventure Hotel við Þingvallavatn; Hotel Borealis, hótel og veitingastaður í Grímsnesi; Cottages Laketingvellir, Þingvöllum; Hotel South Coast ehf., Selfossi; Arctic Nature Hotel, Selfossi; LAVA Centre, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð, Hvolsvelli. Þessi síðasta nafngift er í sýslu Heklu gömlu sem er eitt frægasta eldfjall heimsins. Og í sýslu Eyjafjallajökuls, en þessi nöfn eru heimsfræg,“

Varpar Guðni því næst fram þeirri spurningu hvort að nafngiftirnar séu gefnar „til árangurs og af illri nauðsyn eða af gáleysi íslenskri tungu til háðungar og hnignunar?“ Nefnir hann því næst að nafngiftin Fontana yfir „Gömlu-Gufuna,“ á Laugarvatni hafi farið fyrir brjóstið á mörgum.

„Hefur Fontana einhvern árangursdrifinn kraft fram yfir Gömlu-Gufuna? Er Hótel Rangá eitthvað verr sett með sitt nafn á íslensku? Eða Hálendismiðstöðin Hrauneyjar? Ætti þar að taka upp nafn á ensku eða kínversku?“ segir Guðni og biðlar því næst til þeirra Lilju Daggar Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráherra að fara yfir þessa þróun með ferðaþjónustunni og atvinnulífinu. „Staðan er sú að erlendir ferðamenn verða áttavilltir á þessu rugli og Íslendingar og allir vinir íslenskunnar um heim allan reiðir og undrandi. Og íslenskunni hnignar hratt.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert