ESB vill banna gúmmíkurl

Gúmmíkurl er algengt á íslenskum fótboltavöllum.
Gúmmíkurl er algengt á íslenskum fótboltavöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Evrópusambandið er með til skoðunar að banna gúmmí á gervigrasvöllum til íþróttaiðkunar frá og með árinu 2022. Frá þessu er greint í sænska dagblaðinu Aftonbladet.

Í skýrslu um örplast sem Efnarannsóknarstofnun Evrópusambandsins gaf á dögunum út, er lagt til að svokallað vúlkaníserað gúmmí verði með öllu bannað. Undir það fellur meðal annars SBR-gúmmíið, sem unnið er úr gömlum bíldekkjum, og EPDM sem er þartilgert iðnaðargúmmí. Hið fyrrnefnda réð ríkjum á gervigrasvöllum á Íslandi þar til fyrir stuttu, en það er auðþekkjanlegt á því að leikmenn verða sótsvartir við það eitt að koma nálægt vellinum. Seinni týpan hefur þann kost að sverta leikmenn ekki, en á slíkum völlum er SBR-gúmmíið þó oft að finna límt saman í undirlagi vallarins.

Í umfjöllun Aftonbladet kemur fram að áætlað sé að um 500 tonn af örplasti hverfi árlega af sænskum gervigrasvöllum, en óvíst er hve stór hluti þess endar í hafinu með tilheyrandi áhrif á lífríkið. Ljóst er að úrskiptin yrðu dýr, en um 60 milljónir króna kostar að setja upp einn gervigrasvöll.

Gúmmílausir vellir ekki verið í náðinni

Magnús Böðvarsson, grasvallafræðingur og vallarstjóri hjá KR, segir í samtali við mbl.is að umhverfisáhrif svokallaðra gúmmífyllinga (e. fill-in) hafi lengi legið fyrir. Til séu gervigrasvellir sem innihalda ekki gúmmífyllingar, þó þeir séu líka úr örtrefjaplasti. Svo virðist sem slíkir vellir gætu samrýmst nýju reglunum, en Magnús segir enda óraunhæft að reyna að banna gervigras með öllu í þessum nyrstu og köldustu löndum álfunnar.

Fjölmörg sveitarfélög hafa á síðustu árum endurnýjað gervigrasvelli sína til að skipta einni tegund gúmmíkurls út fyrir aðra, sem svertir leikmenn ekki. Magnús segir að í þeim útboðum hafi alltaf verið gert að kröfu að vellirnir hafi gúmmífyllingar og því hafi framleiðandi, sem vildi bjóða upp á gúmmílausa velli, ekki komið til greina. 

Það komi að hluta til vegna andstöðu FIFA við gervigrasvelli sem ekki innihalda gúmmífyllingar. Nefnir Magnús að FIFA hafi til að mynda hækkað þær kröfur um boltarennsli sem það gerir til Quality Pro-valla, valla af bestu gerð, þegar ljóst var að gúmmílausir gervigrasvellir voru farnir að uppfylla þáverandi kröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert