Skrúfuhringurinn slær í gegn

Skrúfuhringurinn setur mikinn svip á nýjasta torg Reykjavíkur, sem er …
Skrúfuhringurinn setur mikinn svip á nýjasta torg Reykjavíkur, sem er fyrir framan Exeter-hótel. mbl.is/​Hari

Nýjasta torg Reykjavíkur, Boðatorg á mótum Geirsgötu og Tryggvagötu, er óðum að taka á sig mynd. Búið er að koma fyrir tákni torgsins, sem er skrúfuhringur af skipi. Hann hefur slegið í gegn sem leiktæki fyrir unga sem eldri. Hringurinn er fenginn frá Stálsmiðjunni-Framtaki (Slippnum í Reykjavík) og er þeirra smíði og hönnun. Stálsmiðjan smíðaði hringinn fyrir nokkrum áratugum sem sýningargrip á sjávarútvegssýningu í Laugardalshöll, að því er Hilmar Kristinsson verkefnastjóri Slippsins, tjáði Morgunblaðinu. Stálsmiðjan smíðaði svona hringi og þetta var sýningargripur til að sýna útgerðarmönnum hvað smiðjan gat smíðað. Hringurinn stóð við Mýrargötu í mörg ár og síðan við athafnasvæði Stálsmiðjunnar á Ægisgarði, við hlið Slippsins.

„Hönnuðir Boðatorgsins komu að máli við okkur og föluðust eftir að fá hringinn til að setja upp á torginu. Þeir sáu að hringurinn hafði aðdráttarafl og fólk var að taka myndir í gegnum hann,“ segir Hilmar.

Hann segir að þetta hafi verið auðsótt mál og væntanlega verði hringurinn til að minna fólk á Slippinn þegar fram í sækir. Hringurinn var málaður í hafnargulum lit, alveg eins og vitarnir í hafnarmynninu. „Við erum mjög ánægðir með nýju staðsetninguna og það er augljóst að hringurinn er að slá í gegn á torginu,“ segir Hilmar.

Hönnun Boðatorgsins var í höndum Landslags. Hugsunin bak við hringinn er að skapa umgjörð sem er bæði ætluð til að ramma inn síbreytilegu borgarmyndina sem birtist vestan við hann þar sem ný skip koma í slipp, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Sennilega hafi mörg börn í Vesturbænum leikið sér í þessum hring. Nú hafi honum verið fundinn varanlegur staður á nýja torginu. Enn eiga eftir að birtast á torginu bekkir, hjólastæði og gróður en það mun gerast á næstu vikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert