Falin perla varð þekkt og fjölsótt

Horft inn Fossárdal. Fossaröð í neðsta hluta árinnar fyrir miðju …
Horft inn Fossárdal. Fossaröð í neðsta hluta árinnar fyrir miðju og heimreið að bæjum í dalnum til hægri. Ljósmynd/Jón M. Eyþórsson

Skipulagsfulltrúi Djúpavogshrepps hefur auglýst til kynningar breytingu á aðalskipulagi hreppsins. Gerð er tillaga um breytta landnotkun í Fossárvík í Berufirði sem verður afþreyingar- og ferðamannasvæði í stað landbúnaðarsvæðis.

Jafnframt hefur verið auglýst tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir allt að 90 fermetra þjónustuhúsi, uppbyggingu stígakerfis og útsýnispalla, og tveimur bílastæðum fyrir allt að 42 bíla og þrjár rútur.

Landeigandinn hefur fengið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að hefja verkefnið, tæpar 14 milljónir króna.

Fram kemur í greinargerð til kynningar á deiliskipulaginu, sem unnin er af teiknistofunni AKS, að undanfarin ár hafi svæðið í Fossárvík, við Nykurhylsfoss og Nykurhyl, þróast frá því að vera falin náttúruperla yfir í fjölfarinn ferðamannastað.

Hundruð gesta dag hvern

Óformlegar vettvangsathuganir sumarið 2016 leiddu í ljós að á bilinu 4-500 gestir heimsóttu svæðið þá daga þegar mest var. Yfir háannatímann er því töluverður fjöldi gesta á svæðinu og gætir áhrifa þess á umhverfið sem og aðgengi inn Fossárdal. Aðeins þrjú malarbílastæði eru uppi á Sveinsstekk, þaðan sem fólk gengur til að skoða Nykurhylsfoss. Ökutækjum er því gjarnan lagt í vegköntum, jafnt smábílum og rútum, og stoppa jafnvel umferð eftir veginum.

Áhrifa þessarar auknu umferðar er farið að gæta á lággróður og mosa auk þess sem umgengni um svæðið er á tímum mjög slæm. Innviðir ferðaþjónustu á svæðinu eru mjög takmarkaðir. Snarbrattir gljúfurveggir Fossár geta reynst mjög hættulegir ef farið er ógætilega í nágrenni þeirra. Eyjólfsstaðavegur, sem liggur inn í Fossárdal, er gjarnan illfær vegna bílaumferðar við Nykurhylsfoss. Stæði er fyrir þrjá bíla en einnig hafa myndast lítil útskot meðfram veginum og bæði fólksbílar og rútur leggja á veginum ef svo ber undir. Hentislóðar hafa myndast víða í gróðri þar sem ferðamenn vilja nálgast ána og virða fyrir sér fossa og flúðir. Til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp hafa landeigendur á Eyjólfsstöðum og Eiríksstöðum haft frumkvæði að gerð deiliskipulags sem ætlað er að tryggja öryggi gesta og að skapa þeim, og heimamönnum, umgjörð til ánægjulegrar upplifunar af íslenskri náttúru.

Fossárdalur er um 20 km langur dalur sem gengur inn úr Fossárvík í Berufirði. Upp af víkinni eru há klettabelti sem nefnast Fossárdalsklif og hylja dalinn fyrir augum þeirra sem leið eiga um hringveginn. Það er ekki fyrr en upp fyrir Klifin er komið sem grösugur dalurinn blasir við. Dalurinn er umkringdur háum og miklum klettabeltum Fossárfells annarsvegar og Suðurfjalla hins vegar.

Horft til austurs niður gljúfur Fossár.
Horft til austurs niður gljúfur Fossár. Morgunblaðið/Andrés Skúlason

Grösugur og kjarri vaxinn

Dalurinn er grösugur og kjarri vaxinn að hluta auk þess sem blómleg skógrækt prýðir landslag norðan megin Fossár, utan við Eyjólfsstaði. Eftir dalnum rennur Fossá en hún á upptök sín í Líkárvatni og fellur fram dalinn um gljúfur og ása og myndar hátt í 30 fossa á leið sinni til Fossárvíkur. Fossarnir draga margir hverjir nafn sitt af landslaginu sem áin rennur um svo sem Vindássfoss, Vondássfoss, Sundássfoss og Fálkaássfoss. Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í langri fossaröðinni og steypist fram af 16 metra háu hamrabelti þaðan sem áin kastast um flúðir og hylji þar til á henni hægist í Nykurhyl sem er 9 m djúpur þar sem mest er. Úr Nykurhyl rennur áin áfram til sjávar, undir hringveginn, út í Berufjörð.

Umhverfi árinnar einkennist af gljúfrum og klettahömrum sem sumir hverjir hafa slípast til af ágangi árinnar í gegnum aldirnar. Landið er rýrt og landslagið stallað með klöppum næst brúnum en gróðri á milli klappanna. Lúpína og birki ásamt fjölbreyttum tegundum blómplantna einkenna grösug svæði meðfram ánni. Trjágróðri hefur verið plantað á nokkrum svæðum meðfram ánni að norðanverðu og eru þar öflug skjólbelti með fjölbreyttum tegundum s.s. lerki, greni, furu og ösp.

Hægt er að kynna sér tillögurnar á heimasíðu Djúpavogshrepps: www.djupivogur.is. Frestur til að gera athugasemdir er til 23. ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert