Flugin tíðari og vélarnar stærri

Vél flugfélagsins Ernir.
Vél flugfélagsins Ernir. Ljósmynd/Ernir

Flugferðir til Vestmannaeyja verða tíðari og sætafjöldi meiri yfir verslunarmannahelgina. Þetta segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis.

„Þetta verður svipað og undanfarin ár. Við verðum með fjölda ferða alla helgina. Stærsti dagurinn er á mánudaginn þegar við fljúgum alveg frá klukkan sjö um morguninn og fram á kvöld,“ segir Ásgeir. 

„Það eru tíðari ferðir á mánudeginum og svo stærri vélar. Það verður svipaður ferðafjöldi föstudag, laugardag og sunnudag en meiri sætafjöldi.“

Ásgeir segir sölu flugferða ganga vel. 

„Það fór hægt af stað en er að tikka mjög mikið upp þannig að við sjáum fram á mjög flotta flutninga þessa helgina. 

„Við erum enn þá að bæta við ferðum og komum til með að bæta við enn fleiri ferðum, sérstaklega föstudag, laugardag og sunnudag. Við náum ekki fleiri ferðum á mánudeginum en það er enn þá töluvert af sætum laus, en þau fara hratt.“

Flugfélagið Ernir er eina flugfélagið með áætlunarflug til Vestmannaeyja yfir verslunarmannahelgina, en svo virðist sem félagið nái vel að svara spurn eftir flugferðum. 

Þá munu bæði nýi og gamli Herjólfur sigla frá Landeyjahöfn, en eldri Herjólfur mun sigla aukaferð klukkan 13 á föstudag til Vestmannaeyja og aðra ferð klukkan 11:30 á mánudag frá Vestmannaeyjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert