Framkvæmdir við heilsulind í haust

Hér á vestasta tanga Kársness verður heilsulindin.
Hér á vestasta tanga Kársness verður heilsulindin.

Opna á heilsulind með baðstað, veitingahúsi og annarri útivistartengdri afþreyingu í Kópavogi innan tveggja ára. Fyrirtækið að baki verkefninu er Geothermal Lagoons ehf., en fjallað var um það í Morgunblaðinu í dag að kanadíska afþreyingarfyrirtækið VIAD hefði nýverið keypt meirihluta í fyrirtækinu.

Í samtali við mbl.is segir Eyþór Kristján Guðjónsson, stjórnarformaður Geothermal Lagoons, að verkið sé nú fullfjármagnað. Upphaflega stóð til að heilsulindin opnaði árið 2020 en það hefur nú frestast um ár. Húsnæðið er enn í hönnun, en vonir standa til að hægt verði að hefja framkvæmdir í haust og ætti umfangið þá að skýrast nánar.

Baðstæðið er á 34.000 fermetra lóð á vestasta tanga Kársness við hlið lóðar þar sem áður stóð til að reisa höfuðstöðvar WOW air. Vísir greindi frá því fyrir tveimur árum að hugmyndin væri að koma þar einnig upp líkamsræktarstöð þegar fram líða stundir.

Baðsvæðið á að vera heilsuparadís í borg og segir Eyþór að mikil áhersla verði lögð á upplifun viðskiptavina. Ætlunin sé að stíla bæði inn á borgarbúa og erlenda ferðamenn. Heilsulindin hefur enn ekki fengið nafn, en Eyþór viðurkennir að nokkur séu til skoðunar. „Það er eitt sem er ofar á listanum en önnur, en það skýrist allt í haust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert