Jafnrétti ekki bara fyrir konurnar

Ný stjórn Ungra athafnakvenna. Efri röð frá vinstri: Amna Hasecic, …
Ný stjórn Ungra athafnakvenna. Efri röð frá vinstri: Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Auður Albertsdóttir, nýr formaður Snæfríður Jónsdóttir og Kolfinna Tómasdóttir. Ljósmynd/UAK

„Helsta markmið félagsins er að styðja að jöfnum rétti kynjanna, sérstaklega sem þátttakendur og stjórnendur í atvinnulífinu. Við viljum að körlum og konum bjóðist sömu tækifæri,“ segir Snæfríður Jónsdóttir, nýr formaður Ungra athafnakvenna (UAK). 

Ný stjórn UAK hefur tekið til starfa í kjölfar aðalfundar félagsins í lok maí. Frá fyrra starfsári sitja áfram þær Auður Albertsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir ásamt Snæfríði, en Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir voru kjörnar í stjórn á aðalfundinum. 

Snæfríður segist vera afar spennt fyrir komandi starfsári, en félagið fagnar 5 ára afmæli sínu í haust. 

„Ég er mjög spennt fyrir komandi ári. Það er margt spennandi framundan, þetta er merkilegt ár í sögu félagsins því við fögnum 5 ára afmæli.

„Þetta félag sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir ungar konur í atvinnulífinu. Þetta skapar sterkt tengslanet og er mjög svona peppandi fyrir okkur félagskonur. Það er mjög skemmtilegt og mikill heiður að fá að leiða þetta teymi áfram.“

Vilja víkka sjóndeildarhringinn

UAK hefur það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar njóta sömu tækifæra og að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu með fræðslu og tengslamyndun. 

„Í fyrra lögðum við áherslu á að fá fleiri félaga úr ólíkum geirum til að víkka sjóndeildarhringinn. Við viljum halda áfram á þeirri braut í ár og auka fjölbreytnina. Það skiptir okkur miklu máli að skapa fjölbreytt atvinnulíf og þannig samfélagi viljum við stuðla að,“ segir Snæfríður. 

„Við tæklum mál sem varða stjórnarsetu kvenna, laun, kynbundið ofbeldi innan vinnustaða. Þetta eru ekki ný mál en þetta eru mál sem fleiri eru að tala um og við viljum halda umræðunni á lofti, við viljum ekki missa hana niður.“

Jafnréttisbaráttan ekki bara fyrir konur

Snæfríður segir félagið vera opið öllum konum og að það reyni jafnframt með starfssemi sinni að virkja aðra hópa samfélagsins í jafnréttisbaráttu kvenna. 

„Í fyrra voru í kringum 250 konur skráðar í félagið. Við búumst bara við að það verði svipað núna. Við finnum fyrir miklum áhuga og spennu í loftinu fyrir komandi starfsári. Það eru engin aldurstakmörk og þú þarft ekkert að hafa gert eitthvað merkilegt til að tilheyra félaginu. Ef þú finnur þig í félaginu þá ertu velkomin. 

„Við höldum reglulega opna viðburði og hvetjum alla til að kynna sér þá því við leggjum mikið upp úr því að þó að Ungar athafnakonur vilji skapa öruggt umhverfi fyrir ungar konur að efla tengslanet og koma sér á framfæri, þá erum við á sama tíma að jafnrétti er ekki eitthvað sem bara við konurnar eigum að láta skipta okkur máli. Þetta á að skipta okkur öll máli,“ segir Snæfríður og bætir við að hingað til séu það aðallega konur sem sæki viðburði UAK. 

Ungar athafnakonur halda að jafnaði tvo viðburði mánaðarlega og nær starfsárið hámarki á UAK deginum sem fer fram í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert