Sápuvatn og hárblásari bjarga fuglum

Æðar­ung­arn­ir eru oft­ast hirt­ir af máv­un­um um leið og þá …
Æðar­ung­arn­ir eru oft­ast hirt­ir af máv­un­um um leið og þá rek­ur dauða á land Ljósmynd/Hlynur

„Volgt sápuvatn, eins og maður notar við uppþvott. Það virkar best á þetta. Og þurrka svo fuglinn með hárblásara á eftir.“ Þetta segir fuglafræðingur Náttúrustofu Austurlands. Æðar­ung­ar í Seyðis­firði hafa að undanförnu drepist vegna olíu sem lek­ur í sjó­inn úr El Grillo, gamla skips­flak­inu á botni fjarðar­ins.

Hlynur Vestmar Oddson, leiðsögumaður, sagði í samtali við mbl.is í gær að æðarkoll­ur syndi í olíubrákum frá skipsflakinu með unga sína, oftar en ekki með þeim af­leiðing­um að ung­arn­ir hafa það ekki af.

„Þetta er al­ger­lega öm­ur­legt. Maður er að fara hérna um fjörðinn og róa með ferðamönn­un­um í gegn­um þessa blessuðu olíu. Það eina sem ég get sagt við þá er: Sjáið hvernig Hitler er enn þá að drepa líf­ríkið okk­ar, dauður í sjö­tíu ár,“ sagði Hlynur. 

Krókna og drepast án einangrunar

Halldór Walter Stefánsson, fuglafræðingur, segir alla fugla geta drepist, syndi þeir í olíubrák. 

„Það eru bara allir fuglar sem smita þessi í fiðrið. Ef það næst ekki af þeim þá missa þeir einangrun og krókna bara og drepast. 

„Ef þeir eru að kafa í olíubrák þá verður allt fiðrið olíusmitað. Fiðrið alla jafna vatnsver fuglinn, hann þolir rigningu og köfun ansi vel. En þessi vatnsvörn hverfur ef fiðrið smitast í olíu og það getur jafnvel átt við um lýsi,“ segir Halldór. 

Æðarungar drepast smitist þeir af olíu.
Æðarungar drepast smitist þeir af olíu. Ljósmynd/Hlynur

Halldór segir best að reyna að handsama fuglinn verði maður var við olíusmit í fiðrinu. Fuglarnir séu aumlegir hafi þeir smitast og því sé auðvelt að handsama þá. 

„Það þarf að handsama fuglinn bara og handþvo hann upp úr volgu sápuvatni og þá næst þetta af. En ef þetta er mikið af fugli þá er það mega verkefni og sennilega illviðráðanlegt. 

„Fuglinn ber sig voðalega aumlega ef hann smitast. Þeir fara yfirleitt í land, en þeir drepast frekar fljótlega því ef varnirnar hverfa þá krókna þeir tiltölulega fljótt, segir Halldór.“

Ekki verið tilkynnt um ungadauða

Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir að bærinn hafi hingað til ekki verið látinn vita af ungadauða í sumar. 

„Það var ekki búið að tilkynna okkur um neinn ungadauða. Heilbrigðiseftirlitið ætlar að senda mann til að skoða hversu alvarlegt þetta er og bregðumst við því bara eins og við getum. En eins og ég segi þá sá ég það bara í fréttinni hjá ykkur að þetta væri að gerast,“ segir Aðalheiður. 

„Þetta hefur verið auðvitað lengi svo það er ekki eins og þetta sé eitthvað nýtt. Við héldum að stjórnvöld myndu kannski hjálpa okkur með þetta en þau segjast hafa gert það sem þau geti. Það var farið um árið og reynt að tæma skipið en það tókst ekki alveg. Þetta var náttúrulega gríðarlegt slys á sínum tíma og fjörðurinn fullur af olíu,“ segir Aðalheiður. 

Bretar ákváðu að sökkva skipinu

El Grillo var olíubirgðaskip Bandamanna, 7.264 brúttórúmlestir að stærð, smíðað árið 1922 og var ganghraði þess 9,5 sjómílur á klukkustund. 39 menn voru í áhöfn skipsins auk níu

El Grillo sekkur í Seyðisfjörð 1944.
El Grillo sekkur í Seyðisfjörð 1944.

skotliða úr her og flota sem önnuðust varnir skipsins sem búið var tveimur fallbyssum, fjórum loftvarnarbyssum og fjórum rakettubyssum, sem þóttu nokkuð úreltar. Skipið var fulllestað með 9.000 tonn af svartolíu og dísilolíu.

Frétt af mbl.is

Þann 10. febrúar 1944 gerðu þrjár þýskar flugvélar sprengjuárás á El Grillo og hæfði ein sprengnanna skutinn svo það sökk að hálfu leyti. Áhöfnin komst af, en eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar tóku þá ákvörðun að sökkva því þó enn væri mikið magn olíu um borð. 

Reynt hefur verið að dæla olíunni að mestu leyti upp úr skipinu, síðast um aldamótin, en líkt og ungadauði í Seyðisfirði síðustu ár ber vitni um hefur reglulega orðið vart olíumengunar úr skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert